Skapandi skóli

73 TÆKNI OG TJÁNING : SKAPANDI SKÓLI Upplýsingaefni Bæklingar, fréttablöð, efnisvefir og rafbækur Eins og flestir kennarar þekkja er hægur vandi að útbúa bæklinga og fréttablöð með til þess gerðum hugbúnaði ef ekki skortir hugmyndir að efni í texta og myndum. Samt þarf að gæta að smekkvísi og vönduðum frágangi, kenna nemendum að standa vel að verki. Það er hollt fyrir nemendur á öllum aldri að fást við umbrot, myndskurð, grafík og slíka hluti og mikilvægt líka að rækta með þeim metnað hvað snertir málfar og stafsetningu. Verkefninu má líka gefa aukið gildi með því að láta nemendur sjálfa spreyta sig á teikningu og ljósmyndun í stað þess að tína til tilbúið myndefni. Hanna má útlit titla, heimatilbúna grafík, hausa og merki. Efnisgerð eins og þessa má setja í alls konar samhengi og tengja til dæmis þemanámi og sögurömmum. Fréttablað gæti verið frá Sturlungaöld og flutt váleg tíðindi af átökum, greint frá nýju handriti, skipskaða og matjurtarækt í klaustri. Bæklingur gæti verið eftir áhugafólk um endurheimt votlendis, sérlundaðan sveppafræðing eða kappsaman landvörð sem vill koma í veg fyrir utanvegaakstur. Nú er líka nánast leikur einn að búa til einfalda en tilkomumikla efnisvefi á til þess ætluðum vefsetrum og áhugavert fyrir nemendur að setja upp á myndskreyttum vefsíðum umfjöllun um áhugavert efni tengt námi eða áhugamáli. Rafbækur hafa svo rutt sér til rúms á seinni árum. Þær geta verið gagnvirkar og teflt fram myndskeiðum, hljóðupptökum, skjásýningum, spurningum, þrautum og jafnvel leikjum. Sumar tegundir rafbóka bjóða upp á undirstrikanir, orðskýringar og glósugerð og er þá stundum unnt að lýsa upp texta eða skrifa inn athugasemdir á spássíu. Ýmis tól hafa komið út til þess ætluð að búa til rafbækur og tilvalið að láta nemendur spreyta sig á því. Bækurnar geta fjallað um áhugamál á borð við fimleika eða fótbolta, efni sem nemendur eru að glíma við í skólanum, geymt ýmis nemendaverk eða verið farvegur fyrir sögugerð og skáldskap. Fjallað er nánar um þetta efni og handhæg verkfæri á fylgivef bókarinnar. Spjöld og töflur á vegg og vef Veggspjaldagerð á sér langa hefð í skólastarfi og margvísleg efnisgerð önnur fólgin í alls konar föndri til útstillingar upp um hillur, glugga og veggi. Afrakstur nemendavinnu setur oft hlýlegan og líflegan svip á ganga, stofur og sali og gildi þess háttar verkefna og miðlunar á þeim verður seint metið til fulls. Eins og í allri sköpun skiptir máli að vanda til verka og gæði í undirbúningi og kennslu skila sér oft í áhugaverðum og heillandi verkum eftir nemendur. Stafræna tækni má nýta við hugmyndavinnu og efnisöflun, við gerð leiðbeininga fyrir nemendur, til að miðla til foreldra og annarra því sem vel tekst og stundum líka til að fást við

RkJQdWJsaXNoZXIy MjIxNzc=