Skapandi skóli

67 EITT OG ANNAÐ UM RITUN : SKAPANDI SKÓLI Leikmunaritun Hér er um áþekka vinnu að ræða og í búningaritun nema að hér eru einstakir hlutir notaðir sem kveikja að rituninni. Skópar, ryðgaður ketill, gamaldags sími, loðhúfa, gaffall eða hrörleg dúkka getur kveikt góða hugmynd að sögu. Hægt er að láta hópinn allan vinna út frá sama hlutnum og sjá hvernig hann birtist á ólíkan hátt í sögunum. Einnig er hægt að stilla nokkrum hlutum upp á mismunandi stöðum í stofunni og leyfa nemendum að velja um hvaða hlut þeir skrifa, eða stilla hlutunum öllum upp saman og gera það að skilyrði í rituninni að allir hlutirnir komi við sögu á einhvern hátt og tengist þannig saman. Leikritun Eitt það skemmtilegasta sem nemendur fást við í skólastarfinu er leiklist og hún er oft það eftirminnilegasta úr skólanum þegar skólagangan er rifjuð upp síðar á lífsleiðinni. Við að semja, setja upp og sýna leikrit fer líka fram heilmikið nám sem tekur til margra þátta. Ef leikritið fjallar um námsþætti á borð við kvenfrelsis- baráttu eða þorskastríð verða nemendur að sjálfsögðu margs vísari um þá. En þar fyrir utan fer fram heilmikil þjálfun í ýmsu öðru. Má þar nefna samvinnu, skapandi og gagnrýna hugsun, verklag og listræn tök við hönnun búninga og leikmynda, skipulagningu, framsögn, framkomu, bjartsýni og úthald í langtímaverkefni þar sem allir verða að leggjast á eitt til að hlutirnir gangi upp. Hópur vinnur saman Þegar heilum bekk eða stórum hópi nemenda er ætlað að semja saman leikrit er nauðsynlegt að fylgja góðu skipulagi. Hér verður stiklað á stóru um slíka vinnu en á vef bókarinnar má finna ítarlegri umfjöllun um gott vinnulag við að semja leikrit frá grunni, hvort sem byggt er á námsefni eða fengist við frjálst efni. Hlutverk kennarans hér er að stýra vinnunni og halda utan um afrakstur hverrar lotu og hugsanlega að sjá um lokavinnslu handrits fyrir unga nemendur. Nemendur sjálfir móta hins vegar söguna, persónurnar, umhverfið og textann. Áður en sjálf leikritunin hefst er nauðsynlegt að fara yfir með nemendum hvernig handrit að leikriti lítur út. Best er ef hægt er að sýna stuttan leikþátt eða bút úr leikriti í upphafi og skoða að því búnu leikþáttinn aftur saman, staldra jafnvel við af og til og fara yfir atriði eins og tegund sögu, umhverfi, framsögn, tæknilegar útfærslur og fleira í þeim dúr.

RkJQdWJsaXNoZXIy MjIxNzc=