Skapandi skóli

66 Hægt er að hugsa sér endalausar uppsprettur skapandi texta í skemmtilegum myndum sem nálgast má á netinu eða taka úr dagblöðum, tímaritum og auglýsingabæklingum. Þó að gaman geti verið að leyfa nemendum sjálfum að finna slíkar myndir, fylgir því oft enn meiri spenna að sjá hvað kennarinn hefur tínt til og fær hverjum og einum. Það getur líka verið skemmtilegt og hvetjandi fyrir nemendur ef kennari hefur sjálfur skrifað texta út frá mynd eða ef fjallað er með bekknum um möguleika til sögugerðar fólgna í myndunum áður en þeim er dreift til nemenda. Nemendur búa ekki allir yfir jafn mikilli hugkvæmni og sumum þarf að veita mátulegan stuðning. Fleiri aðferðir en að leita uppi myndir úr blöðum eða af netinu er hægt að nota sem skemmtilega kveikju að ritunarverkefni, hvort sem í verkefninu á að fylgja ákveðnum fyrirmælum eða ritunin er gefin algjörlega frjáls. Hér eru hugmyndir sem byggja á annarri nálgun. Búningaritun Farið er í búningageymslu skólans og nemendur velja sér fatnað og fylgihluti. Nemendum er svo skipt í litla hópa eftir búningum sem átt geta saman og þeir látnir stilla sér upp fyrir myndatöku, líkt og um væri að ræða atriði í leikriti. Tekin er mynd af hverjum hópi og prentuð út eða henni dreift á tölvur í jafn mörgum eintökum og nemendur í hópnum eru margir. Hópurinn getur valið sameiginlega yfirskrift yfir myndina sína og svo hefjast allir handa við að skrifa sögu tengda myndefninu. Sögurnar innan hvers hóps geta orðið ansi ólíkar og skemmtilegt að sjá hvernig hugmyndir myndirnar kveikja. Einnig má láta hvern hóp setja upp örstutt spunaleikrit, ekki lengra en þrjár mínútur, þegar í búningana er komið og skrifa svo sameiginlega sögu, ljóð eða leikrit út frá mynd sem tekin var af hópnum á meðan á spunanum stóð. Upplagt er að nota spjaldtölvur í tökur enda þarf þá varla að prenta myndirnar út. Hér eru tveir félagar á góðri stund. Annar blómkálssnjókarlinn segir hinum sögu. Skyldi sagan vera hryllingssaga sem endar í blómkálsgratíni? Eða eru þeir að ræða um uppvöxt og þroska mismunandi kálafbrigða og grænmetis í notalegri og ilmandi mold uppi í sveit?

RkJQdWJsaXNoZXIy MjIxNzc=