Skapandi skóli

43 ÞEMU, SÖGURAMMAR, SAMVINNA OG LEIT : SKAPANDI SKÓLI Mottuleiðin Þessi samvinnunámsaðferð byggir jafnt á samræðum og ritun. Þegar þessi leið er farin má telja nánast víst að allir nemendur taki virkan þátt og ef misbrestur verður á því sér kennarinn það strax og getur gripið inn í vinnuna. Hér vinna nemendur bæði einir og í hópum á stórt blað (A3 eða stærra), svonefnda mottu. Á mitt blaðið er teiknaður hringur eða ferhyrningur og afganginum skipt í sem jafnasta reiti fyrir alla í hópnum. Æskilegastir eru fjögurra manna hópar en stundum þarf að sýna sveigjanleika í því sem öðru í skólastarfinu. Nemendur nota tússliti til að skrifa með á blaðið og hver hefur sinn lit. Þannig er auðvelt að sjá hver lagði hvað af mörkum. 1 Kennari fær hverjum hópi ákveðið viðfangsefni eftir að hóparnir hafa verið myndaðir og fengið eða útbúið sínar mottur. 2 Nemendur fá tvær til þrjár mínútur til að hugsa um viðfangsefnið áður en þeir hefjast handa við að skrifa. Á þeim tíma eiga þeir ekki að ræða saman. 3 Þegar kennari gefur merki taka nemendur til við að skrá hugmyndir sínar, vitneskju eða hugleiðingar um viðfangsefnið í sinn reit á mottunni og fá til þess fimm til tíu mínútur. Þetta er gert í stikkorðum og punktum frekar en samfelldum setningum. 4 Hóparnir fá síðan ákveðinn tíma til að skoða saman allar hugmyndirnar sem fram komu og velja úr þeim þær sem eru sameiginlegar, vekja mesta forvitni hópsins eða þykja réttastar. Fyrirmæli kennarans varðandi þetta byggjast á því hvernig og hvort vinna á með viðfangsefnið frekar. Þessi atriði eru skrifuð á miðju mottunnar. Niðurstöður eru stundum kynntar fyrir hinum mottuhópunum og fer það eftir viðfangsefnum hverju sinni. Þá velur hver hópur einn fulltrúa fyrir sig til að kynna mottuna munnlega, með því að ganga milli hópa og kynna niðurstöðurnar eða kynna þær fyrir öllum bekknum. Aðferðin laðar fram tvö grundvallaratriði í uppeldi og menntun: sjálfstæða hugsun og samvinnu. Mottuleiðin er góð aðferð til að fá nemendur til að dýpka sig í efni kennslustundar með því að hugsa einir og óstuddir um efni hennar eftir öðrum brautum en námsbækurnar og kennarinn hafa lagt. Enn meiri dýpt næst svo með því að ræða efnið við aðra í hópnum eftir að hver og einn hefur komið fram með sínar hugsanir um viðfangsefnið. Aðferðin er nokkurs konar blanda af hugflæði og hugarkorti og hægt er að nota mottuna sem grunn að hugarkorti um viðfangsefnið, bæði til að rifja upp og taka saman efni kennslustundarinnar og greina aðalatriðin frá athyglisverðum sjónarmiðum sem þar komu fram. Oft er þessi aðferð líka notuð sem nokkurs konar kveikja að stærri verkefnum. 4 nemendur í hóp 3 nemendur í hóp 5 nemendur í hóp

RkJQdWJsaXNoZXIy MjIxNzc=