Skapandi skóli

19 ÚR VERKFÆRAKISTU KENNARANS : SKAPANDI SKÓLI Kveikjur Í upphafi kennslustundar er mikilvægt að ná strax tengslum við nemendur því áhugi nemenda leikur veigamikið hlutverk í námi þeirra. Kveikjur (e. hooks) eru til þess fallnar að vekja áhuga nemenda og tengja viðfangsefnið og verkefnin menningu þeirra og reynsluheimi. Óspennandi nálgun getur drepið niður áhuga nemenda og skiptir þá litlu hversu áhugavert viðfangsefnið kann að vera. Hægt er að fanga athygli nemenda á fjölbreyttan máta og kennari sem bregður út af vananum á einhvern hátt í upphafi kennslustundar nær strax athygli nemendahópsins. Hann getur til að mynda mætt í búningi eða með hatt í kennslustund eða spilað lag, ef ekki sjálfur á gítar eða ukulele, blokkflautu eða annað heppilegt hljóðfæri sem hann ræður vel við, þá af stafrænum miðli, því sem hendi er næst. Ef vekja á áhuga nemenda á tilteknu viðfangsefni má hefja kennslustundina á því að sýna þeim eitthvað óvænt eða óvenjulegt því tengt. Einnig er hægt að hita upp fyrir kennslustund í vændum með því að sýna nemendum kveikju í lok tíma. Dæmi um kveikjur sem koma á óvart Kennslustund um rafmagn hefst á því að spilað er lagið Thunder með rokksveitinni AC/DC án þess að geta um nafn hljómsveitarinnar og heiti lagsins. Tónlistin er spiluð hátt og nemendur beðnir að velta því fyrir sér hvernig lagið tengist viðfangsefni dagsins. Kennslustund um liðdýr: Kennari sýnir stutta mynd á YouTube af tarantúlu og sporðdreka að slást. Hvort dýrið haldið þið að vinni? Kennslustund um innviði jarðar: Nemendur fá allir eina Djúpu, sælgætisskúlu frá Freyju, eða jafnvel Mozart-kúlu ættaða frá Salzburg. Þeir eiga að skoða kúluna, skera hana í sundur og velta fyrir sér hliðstæðu laga í kúlunni við jarðskorpu, möttul og kjarna.

RkJQdWJsaXNoZXIy MjIxNzc=