Dægurspor

Dægurspor 88 Tónlistarflutningur á skemmtistöðum var fjölbreyttur og lifandi. Hljómsveitir komu fram í einkennisbúningum og voru yfirleitt fastráðnar á einum stað. Oft var leikið eftir nótum sem hafðar voru á sérsmíðuðum púltum, gjarnan merktum viðkomandi skemmtistað eða hljómsveit. Mörg íslensk dægurlög voru samin sem tangóar eða valsar. Seinna bættust við mambó og fleiri suður-amerískir dansar. En djassinn hafði náð eyrum margra þegar hér var komið sögu. Stundum léku hljóðfæraleikarar nokkur djasslög sjálfum sér til ánægju áður en sjálfur dansleikurinn hófst. Harmóníkan heillaði enn og fólk steig gömlu dansana, polka, ræl, skottís og vals af hjartans lyst. Margt breyttist síðan á bítlatímanum eftir 1963. Ýmislegt utan að komandi hafði áhrif á þróun dægurtónlistar hér á landi. Prentaðar nótur, hljómplötur, útvarp og sjónvarp gáfu tóninn. Þá skildi hersetan eftir sig ótal spor. Margt ungt fólk fetaði sig eftir þessari slóð, heillað af tískustraumum líðandi stundar. Erlendir tónlistarmenn sem settust hér að, vísuðu oft veginn. Joseph Felzmann, Carl Billich, Fritz Weisshappel og JanMoravék komu t.d. frá Vínarborg, þó að sá síðastnefndi væri reyndar tékkneskur. Þeir fluttu með sér aldagamla fagmennsku þeirrar miklu tónlistarborgar. En lýðveldið Ísland var ungt og fólk þjóðlega þenkjandi. Ort var á góðri íslensku um sígild viðfangsefni, eins og ástina og sjómenn á hafi úti. Sumum textahöfundum varð einnig tíðrætt um andstæðurnar í þjóðfélaginu, sömdu skemmtilega texta um nýjungar sem helltust yfir þjóð er lifað hafði einangruð í þúsund ár. Þar var sveitin vettvangur gamla tímans en borgin staður nýjunganna. KK sextett. Frá vinstri: Kristján Magnússon, Ólafur Gaukur, Ragnar Bjarnason, Guðmundur Steingrímsson, Kristján Kristjánsson, Ellý Vilhjálms, Jón Sigurðsson og Árni Scheving. Tekið í gamla Þórskaffi á 6. áratugnum.

RkJQdWJsaXNoZXIy MjIxNzc=