Laxdæla saga

83 honum og andaðist Kjartan á hnjám Bolla. Iðraðist Bolli þegar verksins og lýsti vígi á hendur sér. Bolli sendi þá Ósvífurssyni til byggða en þeir Þórarinn í Tungu voru eftir hjá líkunum. Og er Ósvífurssynir komu til Lauga sögðu þeir tíðindin. Guðrún lét vel yfir. Lík Kjartans var fært heim í Tungu. Síðan reið Bolli heim til Lauga. Guðrún gekk í móti honum og spurði hversu framorðið væri. Bolli sagði þá vera nærri nóni dags. Þá mælti Guðrún: „Misjöfn verða morgunverkin; ég hef spunnið tólf álna garn en þú hefur vegið Kjartan.“ Bolli bað hana að minna sig ekki á það óhappaverk. Guðrún mælti: „Ekki tel ég slíkt með óhöppum. Þótti mér sem þú hefðir meiri metorð þann vetur er Kjartan var í Noregi en nú, er hann tróð þig undir fótum, þegar hann kom til Íslands. En ég tel þó það síðast er mér þykir mest vert, að Hrefna mun eigi ganga hlæjandi að sænginni í kvöld.“ Þá svarar Bolli og var mjög reiður: „Ósýnt þykir mér að hún fölni meir við þessi tíðindi en þú. Og það grunar mig að þú brygðir þér minna við þó að ég lægi eftir á vígvellinum en Kjartan segði frá tíðindum.“ Guðrún fann að Bolli reiddist og bað hann að segja þetta ekki: „Ég kann þér mikla þökk fyrir verkið. Þykir mér nú það vitað að þú vilt ekkert gera í móti skapi mínu.“ Það varð til tíðinda í Sælingsdalstungu um nóttina eftir að Án settist upp, er allir hugðu að væri dauður. Urðu þeir hræddir sem vöktu yfir líkunum og þótti það undur mikið. Þá mælti Án til þeirra: „Ég bið ykkur í Guðs nafni að þið hræðist mig eigi, því að ég hef lifað og haft vit mitt allt þangað til rann

RkJQdWJsaXNoZXIy MjIxNzc=