Laxdæla saga

78 Guðrún sagði að Kjartan gæti gert allt sem honum sýndist, því að enginn þyrði að mæta honum. Bolli lét sem hann heyrði ekki, eins og alltaf þegar Kjartani var hallmælt; annað hvort þagði hann eða mælti í móti. Á miðvikudag eftir páska sat Kjartan vestur á Hóli í Saurbæ. Þar bjó Auður sú sem áður var gift Þórði Ingunnarsyni og var kölluð Bróka-Auður. Nóttina eftir lét Án svarti, fylgdarmaður Kjartans, illa í svefni, og var hann vakinn. Þeir spurðu hann hvað hann hefði dreymt. Hann sagði að kona hefði komið að sér með skálm í hendi. Hefði hún rist upp á sér kviðinn, tekið í burt innyflin og sett hrís í staðinn. Þeir Kjartan hlógu að draumnum og sögðu að hann skyldi heita Án hrísmagi. Þrifu þeir til hans og þóttust leita hvort hrís væri í maga hans. Auður húsfreyja sagði: „Eigi þarf að spotta þetta svo mjög. Er það mín tillaga að Kjartan geri annað hvort, að hann dveljist hér lengur eða hann ríði með meira lið héðan en hingað.“ Kjartan skopaðist að Auði fyrir þetta og sagðist ekki taka mikið mark á því sem Án hrísmaga dreymdi. Snemma á fimmtudagsmorgun reið hann frá Hóli og fóru tveir synir Auðar og tíu menn aðrir með honum. Kjartan kom við í Hvítadal og sótti vaðmálið fyrir Þórhöllu málgu. Síðan reið hann Svínadal í átt niður í Sælingsdal. Þennan dag var Guðrún snemma á fótum á Laugum. Hún gekk þangað sem bræður hennar sváfu og vakti þá. Þeir spurðu hvers vegna hún væri svo snemma á fótum. Guðrún sagðist vilja vita hvað þeir ætluðu að gera um daginn. Þeir sögðust ætla að halda kyrru fyrir, nú væri fátt til verknaðar. skálm er stór hnífur, sveðja

RkJQdWJsaXNoZXIy MjIxNzc=