Laxdæla saga

71 búningsbót er það sem bætir búninginn, gerir klæðaburðinn glæsilegri gaf í skyn að þar hefðu þeir menn verið að verki sem Bolli gæti haft áhrif á ef hann vildi. Hann sagðist hafa of lengi þolað fjandskap þeirra Laugamanna, og mundi ekki gera það miklu lengur. Þá svarar Guðrún: „Þó að svo sé sem þú segir, að þeir menn séu hér sem hafi ráðið því að moturinn skyldi hverfa, þá virði ég svo að þeir hafi að sínu gengið. Hafið nú það fyrir satt þar um sem ykkur líkar, hvað af motrinum er orðið. En eigi þykir mér verra þó að Hrefna hafi litla búningsbót af honum héðan í frá.“ Eftir þetta skilja þau heldur óvinsamlega og ríða Hjarðhyltingar heim. Eftir þetta hættu þeir Ólafur og Ósvífur að bjóða hvor öðrum heim; var þó kyrrt að kalla. Ekki spurðist síðan til motursins. Það höfðu margir menn fyrir satt að bróðir Guðrúnar hefði brennt hann í eldi að ráði Guðrúnar.

RkJQdWJsaXNoZXIy MjIxNzc=