Laxdæla saga

60 17. Kjartan kemur til Íslands Sumarið eftir gengu skip frá Íslandi til Noregs. Þá fréttist að Ísland væri orðið alkristið. Ólafur konungur var glaður við það og leyfði öllum Íslendingum sem vildu að fara heim til Íslands. Kjartan þakkaði konungi fyrir og sagðist ætla að fara þangað. Þá segir Ólafur konungur: „Eigi munum vér þessi orð aftur taka, Kjartan, en þó mæltum vér þetta ekki síður til annarra manna en til þín, því að þú hefur setið hér meir í vingan en í gíslingu. Vildi ég að þú fýstist eigi út til Íslands, því að hér muntu eiga kost á að fá konu er engin mun slík á Íslandi.“ Kjartan sagðist samt vilja fara til Íslands og skömmu síðar bjuggu þeir Kálfur Ásgeirsson skip sitt til Íslandsferðar. Þegar skipið var albúið gekk Kjartan á fund Ingibjargar konungssystur. Hún fagnar honum vel og býður honum að setjast hjá sér. Kjartan segist hafa búið ferð sína til Íslands. Hún segist halda að Kjartan hafi ráðið þessu einn, fremur en að aðrir menn hafi hvatt hann til að fara burt. Þá gengur Ingibjörg að kistu sem stendur þar hjá henni og tekur upp úr henni hvítan gullofinn höfuðdúk, sem var kallaður motur, og gefur Kjartani. Sagði hún að Guðrúnu Ósvífursdóttur mundi þykja gott að vefja honum að höfði sér. „Muntu gefa henni moturinn í brúðkaupsgjöf,“ segir Ingibjörg. „Vil ég að þær Íslendinga konur sjái það að sú kona er eigi þrælaættar er þú hefur átt tal við í Noregi.“ Kjartan stóð upp og faðmaði Ingibjörgu að sér. Höfðu menn fyrir satt að þeim þætti fyrir að skiljast. vingan merkir vinátta

RkJQdWJsaXNoZXIy MjIxNzc=