Laxdæla saga

55 15. Bolli fer til Íslands Vorið eftir stakk konungur upp á því við Kjartan að hann færi til Íslands og boðaði löndum sínum kristni. En Kjartan sagðist ekki vilja deila um trú við frændur sína og kaus heldur að vera með konungi. Hann hélt líka að faðir sinn og frændur mundu vera fúsari að gera vilja konungs ef þeir vissu af sér hjá konungi. Konungi fannst það skynsamlega ráðið og sendi prest sinn sem Þangbrandur hét að snúa Íslendingum til kristni. Þangbrandur skírði nokkra íslenska höfðingja til kristni. Þeirra á meðal voru Gissur hvíti Teitsson og Hjalti Skeggjason. En miklu fleiri neituðu kristni og ráðgerðu að drepa Þangbrand og þá sem höfðu lagt honum lið. Þess vegna sneri Þangbrandur til baka til Noregs og sama ár komu þeir Gissur og Hjalti þangað líka. Þeir fóru strax til konungs. Bauð hann þeim að vera hjá sér og það þiggja þeir. Sumarið eftir, þegar Kjartan og Bolli höfðu verið þrjá vetur í Noregi, sendi konungur Gissur og Hjalta til Íslands að boða mönnum trú. En konungur hélt fjórum ungum Íslendingum eftir hjá sér í Noregi sem gíslum. Þeir voru allir synir íslenskra höfðingja og þóttist konungur vita að feður þeirra mundu verða fúsari að taka við kristni ef þeir vissu af sonum sínum í gíslingu í Noregi. Einn af þessum mönnum var Kjartan Ólafsson. En Bolli ákvað að fara til Íslands með Gissuri og Hjalta. Áður en Bolli lagði af stað úr Noregi fór hann að hitta Kjartan frænda sinn og sagði: „Nú er ég búinn til ferðar og mundi ég bíða eftir þér til næsta sumars, ef ég héldi að þú færir til Íslands þá. En ég þykist sjá að konungur vilji fyrir engan mun láta

RkJQdWJsaXNoZXIy MjIxNzc=