Laxdæla saga

42 Sama sumar bað Þórður Ingunnarson Guðrúnar. Var það mál auðsótt við Ósvífur og Guðrún mælti ekki á móti. Þau settust að á Laugum hjá foreldrum Guðrúnar en Auður bjó áfram á Hóli í Saurbæ. Sumarið eftir var Auður í seli í Hvammsdal en Laugamenn höfðu sel í Lambadal sem var þar skammt frá. Auður bað smalamann sinn að njósna um það hjá smalamanni Laugamanna hverjir væru heima á Laugum og hverjir væru í selinu. Smalamaður gerði það og sagði henni að Ósvífur og Þórður væru einir heima á Laugum. Þá bað Auður smalamanninn að hafa tvo hesta tilbúna þegar fólk færi að sofa. Smalamaður gerði það og eftir sólsetur riðu þau tvö af stað og var hún þá vissulega í brókum. Þau riðu að Laugum og stigu af baki við túngarðinn. Auður bað smalamanninn að gæta hestanna meðan hún gengi til húss. Hún gekk inn í skálann þar sem Þórður svaf og vakti hann. Hann snerist á hliðina þegar hann sá að maður var kominn. Hún hafði sax í hendi, hjó með því til Þórðar og særði hann á annarri hendinni og bringunni. Svo gekk hún út, stökk á bak hesti sínum og reið heim í selið. Þórður ætlaði að spretta upp en gat það ekki, því að hann mæddi blóðrás. Við þetta vaknaði Ósvífur og spurði hvað hefði gerst. Þórður sagðist hafa orðið fyrir áverka. Ósvífur spyr hvort hann vissi hver hefði unnið á honum og batt um sár hans. sel var það kallað þegar búpeningur (oftast kindur) var hafður í húsum fjarri bæjum, kindur mjólkaðar þar og unninn matur úr mjólkinni smalamaður er sá sem sér um að gæta kindanna sem eru í selinu sax var stutt sverð, oftast eineggjað, sem þýðir að það var með biti öðrum megin líkt og hnífar nú til dags mæddi blóðrás þýðir að blóðrennslið varð honum til vandræða, hann var jafnvel í lífshættu

RkJQdWJsaXNoZXIy MjIxNzc=