Laxdæla saga

22 hnífinn og beltið og þekkti kerling gripina. Var kerling hress þann vetur allan. Konungur sat sjaldan kyrr heima um veturinn, því að hann þurfti sífellt að verja land sitt fyrir víkingum. Ólafur var jafnan í för með honum með menn sína og þótti sú sveit heldur herská. Síðari hluta vetrar kallaði konungur saman þing. Þar stóð hann upp og hélt ræðu. Sagðist hann hafa ákveðið að bjóða Ólafi konungdóm eftir sinn dag, því að hann væri betur fallinn til þess að verða konungur en synir sínir. Ólafur þakkaði honum boðið en sagðist ekki vilja hætta á hvernig synir hans þyldu að hann væri tekinn fram yfir þá. Betra væri að fá skjóta sæmd en langa svívirðingu. Hann sagði líka að móðir sín mundi una því illa ef hann kæmi ekki aftur. Konungur bað Ólaf ráða. Síðan var þinginu slitið. Þegar skip Ólafs var ferðbúið fylgdi konungur honum til skips og gaf honum spjót gullrekið og sverð og mikið fé annað. Ólafur bað um að fá að flytja fóstru Melkorku með sér til Íslands. En konungi fannst það óþarfi og varð hún eftir. Stigu þeir Ólafur þá á skip og sigldu til Noregs. Þar var Ólafur með Haraldi konungi næsta vetur en sigldi sumarið eftir til Íslands. Allir tóku vel á móti Ólafi þegar hann kom til Íslands. Melkorka spurði hann margs af Írlandi, af föður sínum og frændfólki. Brátt spurði hún hvort fóstra hennar lifði. Ólafur sagði það vera. Melkorka spyr þá hvers vegna hann hafi ekki komið með hana til Íslands. Þá svarar Ólafur: „Ekki fýstu menn þess, móðir, að ég flytti fóstru þína af Írlandi.“ Það fannst á að Melkorku var það mjög á móti skapi.

RkJQdWJsaXNoZXIy MjIxNzc=