Hægt er að sýna þá
mannfjöldaþróun sem orðið hefur og er að verða í mörgum löndum
með mynd eins og þeirri sem hér er sýnd. Þessi mynd er úr danska námsefninu
Mosaik (Geografi 7. Geografforlaget). Sams konar líkan má finna á bls. 6 í Landafræði
handa unglingum, 2. hefti frá Námsgagnastofnun.
Líkanið sýnir þróun fólksfjölda og tengsl fæðingartíðni
og dánartíðni. Sum lönd hafa farið í gegnum öll tímaskeiðin,
önnur eru stödd á einhvers staðar á ferlinu.
Á fyrsta tímaskeiði er fæðingartíðni hér um bil sú sama og
dánartíðni. Breytingar eru litlar frá ári til árs, helst vegna þess
að fjöldi látinna er breytilegur vegna farsótta, náttúruhamfara eða hungursneyðar.
Á öðru tímaskeiði dregur úr dánartíðni. Það gerist
vegna þess að heilbrigðisþjónusta batnar, hreinlæti eykst og veitt er aðstoð
vegna uppskerubrests. Fæðingartíðnin breytist ekki því enn vill fólk eignast
mörg börn.
Á þriðja tímaskeiði dregur einnig úr fæðingartíðni. Fólk
vill ekki lengur eignast mörg börn því að það veit að flest þeirra
ná fullorðinsaldri. Fjölskyldur þar sem börnin eru fá eiga betri afkomumöguleika
en barnmargar fjölskyldur af því að það reynist oft erfitt að fæða
og klæða barnaskarann. Áfram dregur úr dánartíðni en ekki eins ört
og áður. Heilbrigðisþjónustan batnar en hefur samt takmörkuð áhrif
á dánartíðnina.
Á fjórða tímaskeiði haldast fæðingartíðni og dánartíðni
aftur í hendur og fólksfjölgun er í jafnvægi.
Í sumum þeirra landa sem farið hafa í gegnum öll tímaskeiðin hefur fæðingartíðni
orðið minni en dánartíðni um ákveðið skeið. Þá verður
þróun fólksfjölda neikvæð, þ.e.a.s. fólki fækkar. Oftast
líður þetta tímabil hjá. Slíkt ástand er líka erfiðleikum
bundið einkum ef það varir árum saman.
Hér getur þú skoðað lönd þar sem fólksfjöldaþróun
er neikvæð:
http://www.popnet.org/ |