Það er eina leiðin til að tryggja afkomu sína þegar ellin færist yfir. Í
ríkum löndum grípur samfélagið í taumana þegar fólk veikist eða
verður svo gamalt að það getur ekki séð um sig sjálft. Í fátækum
löndum er aðeins hægt að reiða sig á fjölskyldu sína.
Börn eru ódýrt vinnuafl. Það er dýrmætt, einkum í landbúnaðarhéruðum.
Þegar lífið virðist vonlaust eru börnin oft mikils virði fyrir samheldni fjölskyldunnar
og til að efla trúna á tilgang með tilverunni.
Þegar reynslan hefur kennt manni að helmingur barnanna deyr áður en þau ná fullorðinsaldri
er mikilvægt að eignast nógu mörg börn til að tryggja að nokkur þeirra
lifi. Nú ná fleiri og fleiri börn fullorðinsaldri en hins vegar er þess langt að
bíða að fólk þori að treysta þessari þróun.
Víða er afar mikilvægt að eignast syni af því að oft eru það þeir
sem geta veitt fjárhagslegan stuðning þegar þeir vaxa úr grasi. Þannig er það
m.a. á Indlandi, en þar er oft litið á dætur sem byrði. Það verður
að gifta þær inn í aðrar fjölskyldur. Giftingin hefur oft í för með
sér mikinn kostnað.
Víða getur verið erfitt að komast hjá barneignum af því að trúarskoðanir
leyfa ekki notkun getnaðarvarna.
Það getur líka verið erfiðleikum bundið að koma upplýsingum og fræðslu
til fólks sem ekki kann að lesa. Þar að auki er ekki víst að fólkið
hafi efni á að kaupa getnaðarvarnir ef ríkið eða aðrar stofnanir veita ekki virkan
stuðning og vinna að því að lækka fæðingartíðni.