Í margmenni – nokkrar hugleiðingar um Indlandsferð

Fyrsta reynslan af umferðinni í Nýju-Delhi var ógnvekjandi. Það var eins og að vera staddur í miðri mauraþúfu – þar sem engar reglur gilda, allir æða af stað á sama tíma og alls kyns farartæki þvælast hvert innan um annað. Ærandi hávaði, hvellandi bílflautur, bifhjól og léttivagnar, vörubílar með ósandi dísilvélar og yfirfullir strætisvagnar.
Í Nýju-Delhi eru engar neðanjarðarlestir eða sporvagnar. Öll umferð fer um yfirfull strætin. Þar þarf líka að vera pláss fyrir uxakerrur, heilagar kýr, léttivagna, dráttarvagna og hjól.



Fólkið er alls staðar
Mörgum er búið það hlutskipti að vinna á götunni. Margir þurfa að draga fram lífið sem götusalar, við blaðasölu eða sem betlarar.

Þegar við loksins komum heim til gestgjafa okkar getum við hvílt okkur. Hér er kyrrð og friður og efni nóg til þess að lifa viðunandi lífi. Gestgjafar okkar eiga hús í góðu borgarhverfi, þau eiga bíl og hafa þjónustufólk. Þetta er ein af mörgum millistéttarfjölskyldum í Indlandi.
Í landi þar sem laun eru mjög lág leiðir af sjálfu sér að millistéttarfjölskylda kaupir aðstoð við ýmis verk. Margir hafa garðyrkjumann til að hlúa að pínulitlum garði, þjón til að elda mat og sinna heimilisverkum, vaktmann til að gæta hússins og fjölskyldunnar og þvottakonu sem kemur og þvær þvottinn.



Rétt við dyrnar birtast andstæðurnar
Vaktmennirnir tveir utan við garðshliðið skipta með sér vöktum. Hvor þeirra um sig er á vakt í 12 klukkustundir.
Grænmetissalinn kemur við nokkrum sinnum í viku með vagninn sinn og við gangstéttina beint á móti sér heil fjölskylda fyrir sér með því að strauja fyrir fólk.
Atvinnutækin eru stórt borð og tvö straujárn. Daglega er borðið sett upp undir stóru tré og stóru níðþungu straujárnin fyllt með glóandi kolum. Kolin eru hituð í göturæsinu.
Hjónin hjálpast að við að strauja. Á meðan hjóla börnin fram og til baka og sækja fatnaðinn til viðskiptavinanna í nágrenninu. Það er unnið alla daga vikunnar og vinnudagurinn er langur.



Margir deila verkefnunum
Oft er þeirri vinnu sem fyrir hendi er skipt milli allt of margra.
Á þokkalegum veitingastað getur það vel gerst að einn þjónn vísi gestum til borðs, annar taki við pöntuninni og sá þriðji beri fram matinn. Á meðan þessu fer fram bursta hálfstálpaðir strákar gólfteppið með litlum handkústum. Starfsfólkið þverfótar ekki hvert fyrir öðru og skipanir gjalla á víxl.
Þetta er ekki eins og hjá okkur þar sem vélar vinna mörg erfið og einhæf verkefni.
Byggingariðnaðurinn þarf á mörgum verkamönnum að halda þegar flest verkanna eru unnin með handafli.

Það þarf marga verkamenn til að bera múrsteina á höfðinu upp á þriðju hæð.
Það þarf líka marga verkamenn þegar bera þarf steypu upp nokkrar hæðir. 15–20 verkamenn hafa nóg að gera, standa í háum tröppum og rétta föturnar áfram. Þeir bera föturnar á höfði sér síðasta spölinn. Allt gengur þetta með mikilli hægð.

Til baka á upphafssíðu