Andspænis örbirgðinni – nokkrar hugleiðingar um Indlandsferð

Við vissum það vel – fjölmiðlarnir hafa svo oft lýst ástandinu.
Samt sem áður er það nánast áfall að standa andspænis þeirri örbirgð sem við öll vitum að margir búa við á Indlandi.
Í sjónvarpinu er ekki lykt af örbirgðinni – en þannig er það í raunveruleikanum.
Það er augljóst að á Indlandi eru andstæður auðs og fátæktar gífurlegar.
Sumir búa við ótrúlegt ríkidæmi. Fjölmenn millistétt býr við ágæt kjör en flestir Indverjar eru bláfátækir.
Margir eiga enga kosti aðra en lifa af illa launuðum störfum eða jafnvel stunda betl.



Sölumenn alls staðar
Auðvitað skera Norðurlandabúar sig úr fjöldanum á götu í indverskri stórborg. Það notfæra götusalarnir sér. Það er nánast ógerlegt að komast undan þeim og erfitt að útskýra fyrir þeim að maður hefur ekki áhuga á vörunum sem þeir eru að selja. Ef þeir telja sig finna örlítinn neista af áhuga elta þeir mann langar leiðir eftir gangstéttinni.
Í landi þar sem félagsleg aðstoð og styrkir fyrirfinnast ekki þurfa margir að draga fram lífið með tilfallandi smáverkefnum fyrir afar lág laun.
Fjölmargir setja upp grænmetismarkað, opna skósmíðaverkstæði eða hárgreiðslustofu á gangstéttinni eða selja heimatilbúnar vörur.



Augnaráð betlaranna er verst
Við mörg gatnamót í Nýju-Delhi þyrpast sölumenn og betlarar í kringum farartækin sem bíða við gatnamótin.
Sumir reyna að selja dagblöð eða smádót.
Aðrir biðja um peninga. Það er erfiðast að horfast í augu við betlarana. Eymdin, vonleysið og fátæktin skín úr augum þeirra. Það er erfitt að víkja meðaumkuninni úr huga sér en virðist vonlaust að leggja svo mörgum lið.
Þegar móðir í slitnum og skítugum fötum með barn í fanginu bankar á bílrúðuna er hræðilega óþægilegt að horfa beint fram og víkja sér undan tilliti hennar.



Ódýrustu leigubílarnir eru léttivagnar dregnir af þríhjólum
Víða í stórborgunum eru léttivagnar sem dregnir eru af þríhjólum vinsæl farartæki. Í hverjum vagni er pláss fyrir tvo farþega. Ökumaðurinn sem stígur hjólið erfiðar mikið en laun hans eru mjög lág.
Ekki eiga allir rúm til að sofa í. Við komumst að raun um það einn kuldalegan morgun um 5 leytið. Á leiðinni út úr Jaipur lýstu bílljósin upp fjölda sofandi fólks sem lá í röðum á gangstéttinni. Fólkið hafði aðeins þunn teppi til að skýla sér. Til hliðar var fjöldinn allur af léttivögnum.



Heimili úr svörtu plasti og pappa
Fátæktin í sveitinni verður til þess að margir vilja freista gæfunnar í borginni en finna sér hvorki starf né samastað. Þetta fólk verður að bjarga sér á götunni og reyna að komast af. Sumir hafa komið sér upp heimili úr svörtu plasti, pappa og öðru tilfallandi efni. Þar dregur þetta fólk fram lífið í miklu vonleysi.


Til baka á upphafssíðu