Óður til Shiva

Óður til Shiva er úr bókinni „Opdragelsesdigte for Ørne" eftir Söru Mathai Stinus, forlagið Clarte 1986.

Í þögninni á heimili mínu, í myrkrinu,
frá veggnum að dyrunum
er auðlegð mín, börnin
í hnipri.
Þögul eftirvænting
í innföllnum augum þeirra
starir hyldjúp
á tómar hendur mínar,
ljáðu mér þriðja augað þitt,
Shiva

Þau tandurhreinu
þau sem leika sér og ganga í skóla
með hárið glansandi af olíu
konurnar angandi af blómailmi
eru eftirlæti guðanna.
Varirnar betelrauðar.
Þær skortir ekki orð
þær tala mál guðanna.
Aldrei brennir sólin
ljósa húð hinna útvöldu.

Angarnir mínir þrýsta sér
hver upp að öðrum, leita huggunar
gegn sultinum.
Faðir þeirra leitar að vinnu
hylur nafn sitt
í bæ hinna einmana
undir pokadruslu
sefur á köldum flísum.
Augað þitt rauða brennandi
Shiva.

Dagurinn er virtur á þrjár rúpíur
Sethinn hefur reiknað það út
náðarsamlegast
í samráði við guðina
vexti af láninu
fyrir lestarmiðanum
dregur hann frá
sanngjarnlega
réttlæti Sethins og guðanna.
Hrísgrjónin kosta tvær og hálfa rúpíu kílóið.

Ljáðu mér þriðja augað þitt, Shiva
svo ég geti brennt
þá ilmandi og skínandi
til ösku og séð börnin mín
leika sér mett
vel menntuð
tandurhrein, Shiva
hvað heimtar þú

í leigu og pant
fyrir augað þitt brennandi rauða?

Betel er munaðarvara, tuggin í Suður-Asíu, unnin úr betelpálma.
Seth merkir góði herra, á Indlandi gjarnan notað um ríka kaupmenn og bankamenn.


Vilborg Dagbjartsdóttir þýddi úr dönsku.