Ljóð um Gandhi
Ljóðið um Gandhi er úr bókinni „Opdragelsesdigte for Ørne" eftir Söru
Mathai Stinus, forlagið Clarte 1986.
Að yfirstíga takmarkanir tímans, venjunnar
og drottinvaldsins,
að sigra alheiminn
með sálarþreki og mannkærleika;
er aðeins á færi örfárra í sögunni.
Víðáttumikið landið lá í hlekkjum
þjóðin hafði smám saman villst af leið
sá engan veg, fjöldinn var óttasleginn og tortrygginn:
hlutskipti þegnanna var
að rogast með byrðar hvíta mannsins.
Þá steig hann fram og hóf upp raust sína
án lærdóms skrúðmælgi vafningalaust:
sefandi orð, styrkjandi orð,
gamalkunn, samt fersk eins og leiftur
sem sló eldi í fortjald sögunnar
svo haldin augu þeirra, innfallin í ömurlegar tóftirnar,
mættu sjá.
Úr myrkurdjúpi kofanna
framréttar hendur, hvíslandi raddir,
þögnin var rofin.
Þau töluðu nú, hreyfðu sig:
auðmjúkir þjónar heimsveldisins,
landeigendanna og drottnaranna,
þeir lægst settu í samfélaginu,
snauðir bændur, konur, handverksmenn
og þeir stéttlausu, forsmáðu og þjökuðu.
Allir beindu þeir sjónum að bjarmanum
af nýjum tíma sem lýsti upp austrið.
Margra alda ranglæti vildi hann afnema
binda enda á villimannlegar erfðavenjur.
Frelsa frá neyð og frelsa frá þrælkun.
Vegurinn varð aftur sýnilegur framundan.
Friði og bræðraþeli meðal fólksins
vildi hann sá í hrjóstruga jörð ófriðarins,
lyfta þjóð sinni upp úr niðurlægingunni.
Með því að endurheimta sæmdina
hemja reiðina og hatrið
myndi þjóðin losna við óttann,
hvert einasta guðs barn
heiðrað fyrir líf sitt og verk.
Hugrakkur fór hann um
og dreifði neistum vonar
bannfærði ofbeldi og stríð
meðan veröldin rétt eins og nú.
Starði aðeins á hann blóðhlaupnum augum …
friður, shanti, frelsi þjóðflokkanna,
var fánýtt tal, kom ekki frá hjartanu
hjá hinum voldugu, forréttindamönnum sögunnar.
Óþreytandi afhjúpaði hann og beraði andlegt gjaldþrot okkar,
vanmáttinn til að breyta heiminum,
viljaleysið til að forðast grimmilegar endurtekningar.
Kúlurnar sem hæfðu hann
voru steyptar úr þröngsýni,
kyrrlát hreystin sem hann dáði,
að deyja án þess að drepa
var Gandhis til hins síðasta.
Shanti er friður á máli hindúa.
Vilborg Dagbjartsdóttir þýddi úr dönsku.