Úrvinnsla efnis Heimasíða |
Ef þú ætlar að búa til heimasíðu getur þú:
|
Verkefnið: |
Heimasíða [Kynning] Núorðið er ekki sérlega flókið að búa til heimasíðu. Vert er að hugleiða þá möguleika sem heimasíða veitir við framsetningu efnis. Hægt er að ná til ótrúlega fjölbreytts hóps fólks og auðvelt er að setja saman myndir, texta og hljóð og gera útlit síðunnar áhugavert. Hægt er að búa til heimasíðu með ritvinnsluforriti, t.d. 'Word', eða með því að nota forrit sem ætlað er til heimasíðugerðar, t.d. 'Frontpage Express'. Vel kann að vera að þið kunnið nú þegar að setja upp heimasíður en svo er líka hægt að finna á netinu mörg kynningarnámskeið í heimasíðugerð. Þar að auki má spyrja einhvern sem kann til verka - kennarann eða aðra bekkjarfélaga. Ef þið ákveðið að búa til heimasíðu ættuð þið að setja ykkur markmið áður en hafist er handa. Af hverju heimasíðu? Hver er markhópurinn? Auðvitað má halda því fram að markhópurinn sé „allir sem hafa netaðgang" - en uppsetning síðunnar verður markvissari ef þið hafið ákveðinn markhóp í huga. Það gæti verið annar bekkur, nemendur sem hafa sömu áhugamál o.s.frv. Með því að hafa ákveðinn markhóp í huga er líklegt að síðan verði áhugaverðari. Ef þetta er ekki ljóst í huga ykkar ættuð þið að hugsa ykkur um eða hætta við. Hver síða verkefnisins verður betri, áhugaverðari og markvissari ef þið vinnið skipulega og léttara verður að hanna síðurnar og gera þær notendavænar. Reynið að hugsa eins og þeir sem eiga að nota síðurnar og ímynda ykkur kröfur um inntak og útlit. Skrifið hjá ykkur mikilvægustu atriðin áður en þið hefjist handa. [Dæmi] Finnið dæmi um heimasíður. Leitið fanga sem víðast og skoðið bæði heimasíður einstaklinga, fyrirtækja og félagasamtaka. Berið saman heimasíður sem hafa haft mismunandi áhrif á ykkur (vakið reiði, samúð, hræðslu, gleði o.s.frv.) Athugið síðan hvað það var sem hafði þessi áhrif (hljóð, textar, skiptingar, myndir, blöndun mynda og hljóðs o.s.frv.) - og hvers vegna. Skráið hjá ykkur slóðina til þeirra síðna sem hafa kveikt hugmyndir eða geta komið að notum við verkefnið. Hver bjó síðuna til? Hvaða áhrif hafði hún? Hvað var eftirtektarvert? [Uppbygging] Á netinu er aragrúi upplýsinga. Sumar eru áhugaverðar og notadrjúgar, aðrar einskis virði og fullkomlega gagnslausar. Munið að tíminn nýtist illa þegar hann er notaður til að rápa í tilgangsleysi um netið. Þess vegna er mikilvægt að heimasíðan ykkar verði aðgengileg og skilvirk. Búið til upplýsingatré þar sem mikilvægar upplýsingar eru aðgreindar frá þeim sem eru minna áríðandi. Ákveðið hvað á að vera á fremstu síðunni og hvað á undirsíðunum, hvernig fyrirsagnir eiga að vera o.s.frv. Þetta er erfitt en það verður til þess að síðan ykkar verður aðgengilegri fyrir þá sem skoða hana. Þið getið velt fyrir ykkur hvort hönnunin á að vera hefðbundin eða óvenjuleg. Þið getið líka byrjað að hugleiða hvernig skiptingin á að vera milli texta og mynda annars vegar, hljóðs og myndbandsbúta hins vegar. Nú er orðið almenn regla að hafa hliðarvalmynd annað hvort hægra- eða vinstramegin á upphafssíðunni. Það er ágæt hugmynd því að þannig getur notandinn verið fljótur að fá yfirlit yfirefnið og aðgang að mikilvægustu svæðunum á heimasíðunni. Hafið EA regluna í huga! (EINFALT og AÐGENGILEGT). Það er engin ástæða til að flækja málin! Þar með er ekki sagt að þið getið ekki prófað ykkur áfram með umferð um síðuna en hafið í huga að notandinn þarf alltaf að hafa yfirsýn yfir uppbygginguna. [Heimasíðan ykkar] Hér eru nokkur góð ráð sem þið skulið hafa í huga. Athugið að viðhorf og hugmyndir höfunda hafa áhrif á það sem einkennir góða heimasíðu. Ekki er víst að þið séuð sammála. Margir og mismunandi hæfileikar eru nauðsynlegir þegar heimasíða er byggð upp. Það þarf að skrifa áhugaverðan og skemmtilegan texta, taka myndir, leita upplýsinga, hanna útlit, hafa yfirsýn yfir verkefnið og framgang þess, kunna á forritið sem notað er o.s.frv. Reynið að gera ykkur grein fyrir hvers konar færni verkefnið krefst og skiptið með ykkur verkum. Munið að þið getið líka aflað ykkur nýrrar færni meðan á verkinu stendur svo að þið skulið ekki eingöngu taka að ykkur verkefni sem þið vitið að þið ráðið við. Hafið hins vegar líka í huga að nýta færni og kunnáttu ykkar sjálfra. Veljið einfalt útlit. Veljið a.m.k. tvo til fjóra liti sem koma fram á öllum síðunum og gætið þess að litur texta komi vel fram á bakgrunnslitnum svo auðvelt verði að lesa hann. Gætið þess að nöfnin á krækjunum, sem notaðar eru, séu lýsandi. Lesandinn þarf að vita hvar hann lendir og átta sig á því hvort hann græðir eitthvað á að smella á krækjuna. Þessar upplýsingar má gefa með margvíslegu móti, t.d. með því að hafa myndir undir lýsandi texta. En farið varlega - það er ergilegt að láta plata sig til að opna síðu sem engan áhuga vekur og er ekki í neinu samræmi við það sem búist var við. Ef ykkur langar til að gera síðuna ykkar sérstaklega áhugaverða er hægt að búa fyrirsagnirnar til með myndvinnsluforriti. Vel kann að vera að leturgerðirnar, sem heimasíðuforritið býður upp á, séu ekki sérlega áhugaverðar. Hannið síðuna þannig að ekki taki meira en 30 sekúndur að hlaða hverri skjámynd inn. Enginn nennir að bíða lengur en sem því nemur. Hugleiðið hvort hægt er að fækka myndum og sjáið til þess að hver mynd sem notuð er taki eins lítið pláss og kostur er. Þið getið dregið úr gæðakröfum - annars nennir hvort sem er enginn að opna til að skoða þær. Ef margar myndir eru nauðsynlegar getið þið búið til smækkaða útgáfu sem hægt er að smella á og stækka ef áhugi er fyrir hendi. Hafið í huga að einn af skrýtnum eiginleikum netsins er sá að það getur skapraunað notandanum ótrúlega ef efnið er of flókið. Munið að margir notendur hafa aðeins 28.8 bæta aðgang að netinu. Þeir geta undir venjulegum kringumstæðum sótt 1,5-3 kb. á sekúndu inn á tölvuna sína. Þið getið því reiknað út hvað langan tíma það tekur að sækja mynd sem er 50 kb. Notið sem minnst af hreyfimyndum, skoppandi boltum, merkjum sem snúast, brosandi andlitum o.s.frv. Ekkert þreytir mann meira en síða sem er á sífelldri hreyfingu. Hreyfingin er truflandi og dregur athyglina frá ykkar (áhugaverða) umfjöllunarefni. Engu að síður er vert að hafa í huga að að fanga má athygli lesandans með einni hreyfingu - en hún þarf þá að vera áhugaverð! [Hugmyndir] Safnið efni á síðuna með því að skoða þá miðla sem þið ætlið að nota, myndum úr dagblöðum og vikublöðum til að skanna, efni af Netinu o.s.frv. Hluta efnisins getið þið líka búið til sjálf. Þið getið tekið myndir með stafrænni myndavél, teiknað í myndvinnsluforriti eða tekið upp hljóðskrár. Gætið þess að hafa meira efni en þið ætlið að nota því oft koma upp nýjar hugmyndir á meðan unnið er að verkefninu. Flokkið efnið. Gætið þess að hafa tilgang heimasíðunnar alltaf í huga. Byrjið að undirbúa efnið og verið vakandi fyrir nýjum hugmyndum - en haldið ykkur engu að síður fast við markmiðið og tímarammann sem þið settuð ykkur í upphafi. [Gagnrýni] Það krefst bæði mikillar vinnu og fjölbreyttra hæfileika að búa til heimasíðu. Það þarf að semja texta, teikna og hanna og það er ekki víst að þið séuð sjálf bestu gagnrýnendur eigin verka og vitið alltaf fyrir fram hvað þið viljið. Þess vegna skulið þið kanna hugmyndir og viðbrögð annarra á meðan á verkinu stendur. Ræðið málin. Þið gætuð t.d. búið til spurningalista. Munið að þetta er ekki auðvelt verkefni og það krefst eins og áður er sagt margs konar hæfileika og færni. Yfirhlaðin síða nær ekki tilgangi sínum og gefur allt aðra mynd en til var ætlast. - Er góð yfirsýn yfir efni síðunnar? - Hvernig er hlutfall texta og mynda? - Hvernig er heildarmynd síðunnar? - Hvernig er hægt að breyta því sem þið eruð ekki ánægð með? Gætið þess að skrifa hjá ykkur hugmyndir og nýjar tillögur, slíkt gleymist fljótar en ætla mætti! [Frágangur] Eru öll smáatriði í lagi og frágangur vandaður? Oft eru það einmitt smáatriðin sem skilja milli þess sem vel gengur og hins sem fer út um þúfur - og verður til þess að aðrir nenna ekki að eyða tíma sínum í að skoða heimasíðuna ykkar. Rangar upplýsingar, margar stafsetningarvillur, fingraför á myndum o.s.frv. draga úr trúverðugleika ykkar og áhuga notenda. Ræðið hönnunina og farið yfir öll efnisatriði. [Birting] Hvernig ætlið þið að kynna heimasíðuna: - Völdum hópi sem þið viljið ræða við um heimasíðuna ykkar? - Öllum bekknum? - Bekk í öðrum skóla sem þið eruð ef til vill í fjarsambandi við? Skipuleggið kynninguna vel: Er nægilegt efni í tölvunni? Eiga áhorfendur að fá slóðina að heimasíðunni svo hægt sé að ræða málin eftir kynninguna? Ef þið ætlið að hafa umræður eftir sýninguna skulið þið hugleiða hvernig þið ætlið að stjórna þeim þannig að þær komi að sem mestu gagni. [Mat] Hvernig nýttist heimasíðan fyrir verkefnið ykkar? Hverju veltuð þið mest fyrir ykkur á meðan á verkinu stóð? Hvernig þótti ykkur að þurfa að hafa yfirsýn yfir svona mörg mismunandi atriði? Hvernig gekk ykkur? |