Regnskógurinn
Lífríki regnskógarins er afar frábrugðið því sem þekkist
í skógum á meginlandi Evrópu, eða skógarsvæðum á Íslandi,
s.s. í Hallormsstaðaskógi.
Í regnskóginum vex mikill fjöldi jurta og trjátegunda og því eru tiltölulega
fáir einstaklingar af hverri tegund. Í norrænum skógum eru fáar tegundir en mikið
af hverri. Í birkiskógum á norðurhjara falla laufin af trjánum á haustin
en regnskógurinn er sígrænn.
Eitt einkenni regnskógarins er að margar jurtir vaxa í og á trjánum. Það
er sjaldgæft í norrænum skógum.
Alltaf er heitt í regnskóginum (u.þ.b. 27 gráður) og úrkoma er mikil, að
minnsta kosti 2000 mm á ári. Þess vegna er loftraki mikill.
Þar sem hitastigið er hátt og loftrakinn mikill rotna fljótt blöð sem falla af
trjánum og nýtast þeim sem næring. Þess vegna er ekki þykkt moldarlag í
skógarbotninum og hann er því næringarsnauðari en í norrænum skógum.
Þetta gerir að verkum að þegar regnskógurinn er felldur skolast þunnt moldarlagið
í burtu og eftir er aðeins ófrjósamur jarðvegur sem ekki er hægt að nota
til ræktunar.