Grísku amasónurnar - skjaldmeyjarnar

Í grísku goðafræðinni er sagt frá amasónunum - skjaldmeyjum - sem voru ógnvekjandi þjóðflokkur nakinna kvenna. Þær áttu heima á bökkum Svartahafs og leyfðu engum körlum að koma inn á yfirráðasvæði sitt. Karlmenn máttu aðeins koma þangað einu sinni á ári til þess að njóta ásta amasónanna. Sveinbörn voru drepin eða skilað til feðra sinna. Stúlkur voru þjálfaðar til hernaðar og þeim kennt að drepa með boga og örvum. Til að styrkja boga sinn enn frekar spenntu þær hann við hægra brjóst sitt.

Það má þakka spænskum presti, Caspar de Carbajal. Prestur þessi var farþegi á fyrsta skipinu sem sigldi niður Amasonfljótið með Evrópubúa. Ef til vill hefur presturinn haft fjörugt ímyndunarafl, en hann skrifaði það sem hér fer á eftir:

22 júní á því herrans ári 1541 vorum við á siglingu nærri ósum Nhamundafljóts. Við fórum fram hjá ættflokki sem hafði slegið upp tjöldum á ströndinni. Okkur skorti vistir, svo að við lögðum að landi.

Á augabragði var ráðist á okkur og þá hittum við fyrir 10-12 þessara herskáu kvenna. Þær börðust af svo ógnarlegum krafti að Indíánarnir okkar þorðu ekki að snúa við þeim baki - og þeir sem það gerðu voru óðara barðir til bana með lurkum…

Konur þessar eru hvítar á hörund og hávaxnar; hár þeirra er fléttað um höfuðið og þær eru sterkbyggðar að sjá. Þær ganga naktar nema hvað þær hylja skaut sitt með skinnpjötlu. Þær bera örvar og boga og berst hver þeirra á við tíu Indíána. Reyndar rak ein af þessum konum ör á kaf í byrðinginn á skipi okkar og fleiri fylgdu á eftir, svo að það leit út eins og broddgöltur áður en lauk ...

Texta prestsins hefur hér verið breytt en þar var málfarið snúið og fornlegt. Síðan presturinn skrifaði þetta hefur enginn séð herskáu konurnar. Sumir telja að spænska skipið hafi komið í ósköp venjulegt þorp þar sem allir karlmennirnir voru á veiðum. Algengt er að flestir karlmenn í sama þorpinu fari saman á veiðar í marga daga samfleytt. Konurnar dvelja þá heima og gæta búa sinna og akranna.

Þá hefur spænski presturinn sennilega gert mikið úr því hve skæðar konurnar voru, líklega til að sýna yfirmönnum sínum fram á hve ferðin um Amasonsvæðið reyndist hættuleg. Könnunarleiðangurinn sem presturinn tók þátt í átti aðeins að standa í nokkra mánuði. En hópurinn var á ferðinni í mörg ár. Það þurfti að skýra á einhvern hátt.

Fyrsta spænska leiðangrinum um Amasonfljótið stjórnaði Fransisco de Orellano. Útskýringar prestsins komu honum að litlu gagni. Þegar heim kom úr leiðangrinum var Orellano hálshöggvinn. Hann hafði verið of lengi í burtu. Saga prestsins hafði sem sagt ekki þau áhrif sem til var ætlast. En eigi að síður varð hún kveikjan að nafngift stórfljótsins og hins feiknmikla vatnasvæðis sem að því liggur.