Sögur og skólaganga

Minning
Eftir Carlos Viteri Gualinga

Enn man ég eftir kennaranum mínum, sem var nýlega kominn í þorpið mitt, Sarayacu, þegar hann ávítti okkur og sagði: „Þið eigið að tala almennilegt mál!“

Við vorum aðeins sex eða sjö ára, en við skildum samt mætavel hvað hann átti við, við áttum að tala spænsku. Það var eina leiðin til þess að hann gæti skilið okkur. Aumingja kennarinn, sem var nýútskrifaður, hafði verið neyddur til að taka að sér að vinna í þessu fjarlæga - og sennilega að hans mati - óvinveitta umhverfi.

Helst olli okkur áhyggjum hve erfitt var að komast að því hvort nýi kennarinn okkar væri góður eða vondur. Það er að segja hvort hann ætlaði að fylgja hefðinni og hirta okkur eins og aðrir kennarar á undan honum höfðu gert.

Við vissum að hann kom frá „jahua llacta“ (þjóðinni úr fjöllunum), við vissum líka að hann var öðruvísi en við. Hann kenndi okkur margt. Sumt var afar mikilvægt, t.d. að leggja saman og draga frá. Það var nytsöm kunnátta úr hans veröld. Og við létum hann ekki gera lítið úr okkar gildum.

Mér fannst afskaplega gaman í skólanum. Það skemmtilegasta sem ég gat hugsað mér var að læra heima. Ég kunni öll versin í þjóðsöngnum utan að, ég kunni Faðirvorið og margt annað sem hann kenndi okkur.

Einu ári síðar varð kúvending í lífi mínu. Fyrirvaralaust var ég sendur í skólann í næstu borg. Það voru kaþólskir trúboðar sem ráku skólann. Þar var ég neyddur til að nota „Tarsan-spænskuna“ mína, þegar ég reyndi að verjast árásarseggjunum, skólasystkinum mínum.

Þegar ég var í fjórða bekk sló kennarinn mig á hverjum degi og skólastjórinn hárreytti mig. Þessi reynsla gerði að verkum að ég fékk andúð á öllu sem tengja mátti við heimalærdóm og skólagöngu. Nú eru þetta minningar sem alltaf rifjast upp annað veifið.

Mikilvægustu áhrifin frá skólaárum mínum, sem voru mér nánast eins og fangelsisvist, eru þau að ég kynntist tónlistinni, tók þátt í námsmannahreyfingunni og í þeirri skipulagningu sem þjóð mín hefur fengist við undanfarin ár.

Þegar talað er um skóla og menntun hugsa ég því til frásagna ömmu minnar, hugsa um þá tíma þegar fólkið talaði við fuglana, fiskana, skordýrin og annað sem í náttúrunni býr. Þegar hún sagði frá tókst ímyndunarafl mitt á flug með minningum hennar. Ég samsamaði mig sögupersónum hennar.

Þótt ég - eða hún - sofnuðum stundum í miðri sögu skildi ég veröldina. Frásagnir hennar kenndu mér að skilja heiminn án þess að læra eitthvað utan að eins og í skólanum og án þess að ég væri beittur þvingunum. Sagnirnar voru fyrsti skólinn minn.