Sögur og F-18 herflugvélar
Huayra vapur
(Carlos velur frásögninni heiti á móðurmáli sínu, quichua. „Huayra
vapur“ þýðir „vindurinn sem hvæsir“ eða „gufuvél loftsins“).
Eftir Carlos Viteri Gualinga
Móðir mín segir frá því að hún hafi fyrst heyrt flugvélarhljóð
í byrjun 5. áratugarins, fyrir meira en 50 árum. Sennilega hefur hún þá
verið u.þ.b. tíu ára gömul.
Dag nokkurn var hún við vinnu á akrinum með öðrum börnum. Þau voru að leika sér og leggja ömmu minni lið við vinnuna. Þau skemmtu sér vel, slógu um sig með litlu öxunum sínum og tíndu maniok-rætur. En allt í einu heyrðist ókennilegt hljóð sem yfirgnæfði hlátrasköllin og hvininn í öxunum. Enginn tími gafst til umhugsunar, á sekúndubroti hættu þau leiknum og földu sig eins og best þau gátu, skelfingu lostin. Úr fylgsnum sínum reyndu þau að átta sig á því hver sú ófreskja væri sem hefði svona hátt. Gætu þetta verið frumskógarandarnir sem afi þeirra hafði sagt þeim svo margar sögur um á kvöldin? Það gat líka verið þessi „Huayra vapur“ sem gamla fólkið taldi að væri til í borgunum.
Þegar þau komu heim varð gamla fólkið sammála um að líklegast væri
þetta Huayra vapur - sem þau höfðu ekki kynnst áður. Því má
ekki rugla saman við „Yacu vapur“, gufuskipið sem sigldi á Amasonfljótinu.
Þetta skip sigldi um loftið. Öldungur þorpsins, afi minn, komst að þeirri niðurstöðu
að andar loftsins ættu í stríði hver við annan.
Jafnvel á þessum tímum, þegar fólkið í frumskóginum þekkti flugvélar aðeins af óljósum frásögnum, tengdi það flugvélarnar við stríð. Og það var líka rétt, því að á þessum árum átti hinn vestræni heimur í styrjöld, seinni heimstyrjöldinni. Þá höfðu herflugvélar verið að þróast í hálfa öld (frá árinu 1908, en þá flaug Englendingurinn Samuel Cody í fyrsta sinn í herflugvél). Það var einmitt þá sem flugvélin sýndi drápshæfni sína hinu megin hafsins.
Afi hafði rétt fyrir sér þegar hann án frekari umhugsunar tengdi gufuvélar loftsins við hið illa, verkfæri dauðans.
Nú á tímum er þessi skilningur afa míns ofarlega á baugi á vettvangi stjórnmálanna. Við veltum því fyrir okkur hvort við eigum að kaupa nýjustu gerðina af Huayra vapur, F-18 herflugvélina.
Ef við ákveðum að kaupa hana eigum við enga von um að sigrast á fátæktinni.
Af móður minni er það að segja 15 árum síðar tók hún sjálf þátt í að gera fyrstu flugbrautina í frumskóginum í þorpinu sínu. Þegar fyrsta flugvélin lenti þar, sagði afi minn frá því, á meðan hann horfði skelfingu lostinn á þessa furðulegu gufuvél loftsins, að frændi hans - sem var náttúrulæknir - hefði séð þetta allt fyrir. Mörgum áratugum áður hafði frændinn neytt heilagra jurta og séð inn í framtíðina. Þá sagði hann:
„Ég hef séð mörg hundruð gufuvélar loftsins koma til þorpsins okkar.
Ég held að það muni gerast í framtíðinni.“