Sagan um konurnar Huituc og Achiote


Margir Indíánahópar mála sig í framan með jurtalitum og lita hár sitt, einkum í tengslum við hátíðir og veislur. Quichua-indíánar í Ekvador nota jurtalitinn huituc. Rebeca Gualinga segir hér söguna um jurtalitinn huituc:

Sagan um konurnar Huituc og Achiote
Í fyrndinni átti íkornamaðurinn tvær konur. Hann lét þær vinna eins og þræla. Á hverjum morgni vildi hann fá vín úr maís og jarðhnetum. Hann vildi aðeins éta besta matinn og var alltaf fúll og leiðinlegur. Konurnar voru orðnar þreyttar á skapvonsku hans. Dag nokkurn þegar þær voru að tína maís sagði önnur þeirra:

„Heyrðu mig heillin mín, maðurinn okkar kemur illa fram við okkur. Auk þess er hann ljótur, hakan er skökk og augun eins og maísgrautur. Af hverju yfirgefum við hann ekki?“

Konurnar vissu ekki að íkornamaðurinn lá á hleri undir runna sem þarna var nálægt. Þegar þær komu heim var maðurinn þögull og leiður. Hann sagði ekkert en starði út í loftið. Konurnar héldu að hann væri að missa vitið, en þær létu sem ekkert væri og lögðust til svefns við eldstæðið. Þegar þær vöknuðu var allt breytt. Ekkert var húsið og enginn íkornamaður. Það var eins og þær hefðu sofið í mörg ár. Konurnar lágu ofan á flækju af jurtum og illgresi.

„Hvar erum við?“ sögðu þær einum rómi. Þá heyrðu þær trumbuslátt í fjarska og söng sem hljóðaði á þessa leið:

Ég er sá sem konunum mínum líkaði ekki, tun tun tun
Ég er þessi með kartöflunefið, tun tun tun
Ég er þessi hökuskakki, tun tun tun
Ég er þessi sem hefur augu eins og maísgraut, tun tun tun

„Hann hefur yfirgefið okkur! Það er maðurinn okkar sem er að syngja,“ sögðu þær hvor við aðra. Konurnar urðu hræddar og ætluðu að flýja. En það voru engir stígar að fylgja, allar götur voru grónar. Þá kom tukan-maðurinn fljúgandi og sagði við þær: „Hvað eruð þið að gera hér, glötuðu konur?“
Þær svöruðu: „Ó, tukan bróðir, við erum konurnar sem íkornamaðurinn yfirgaf. Hjálpaðu okkur.“ Tukan-maðurinn var fljótur að ryðja braut með nefinu og sagði við konurnar: „Heyrið mig systur, þessi stígur greinist í tvær götur langt inni í skóginum. Til hægri er gatan merkt með tveim krosslögðum páfuglsfjöðrum. Gatan til vinstri er merkt með ránfuglsfjöðrum. Veljið götuna með páfuglsfjöðrunum, við enda hennar búa góðu og fallegu mennirnir.“

Konurnar þökkuðu ráðgjöfina og lögðu af stað. Þar sem stígurinn greindist í tvennt sáu þær páfuglsfjaðrirnar til vinstri og ránfuglsfjaðrirnar til hægri. Þær ákváðu að fylgja stígnum sem merktur var með páfuglsfjöðrum, þótt hann væri vitlausu megin. Þær gengu lengi, lengi og þegar rökkvaði komu þær að litlum kofa. Þar bjuggu nokkrir smávaxnir, illa þefjandi karlar. Þeir voru í feluleik í kofanum og bak við trén. Þeir buðu konunum að gista. En þeir hættu ekki að leika sér heldur héldu áfram alla nóttina. Þegar sólin reis fóru þeir inn í kofann til að leggja sig. Í morgunbirtunni sáu konurnar að litlu karlarnir voru grútskítugir. Þær yfirgáfu þá í skyndi en ólyktin af körlunum fylgdi konunum áleiðis.

Konurnar komu aftur að vegamótunum. Ekki leið á löngu þar til þær hittu fallegu mennina eins og tukan-maðurinn hafði lofað þeim.
En þeir litu ekki við konunum af því að lyktin af þeim var svo skelfilega vond. Konurnar gerðu allt sem þær gátu til að ná lyktinni af sér. Þær böðuðu sig í ánni og þerruðu líkamann með ilmandi blöðum. En lyktin hvarf ekki. Tíminn leið og ekki vildu mennirnir eiga þær. Leiðar í skapi fóru þær langt í burtu. Á leið sinni gáfu þær trjánum, fjöllunum og ánum tregablandin nöfn. Þær máluðu dýrin og fuglana fögrum litum. Konurnar komu á enda stígsins þar sem þær heyrðu tukaninn syngja. Þarna var landið hans.

„Hvað eigum við að gera aleinar?“ spurðu þær.

„Við eigum að hugsa um börnin okkar og barnabörnin, svo þeim þyki vænt um okkur og gæti okkar.“

Og þannig var það. Þær breyttu sér í tré, önnur í huituc-tré, hin í achiote-tré. Litir trjánna eru enn þann dag í dag notaðir til að mála líkamann og lita hárið og fólkið sem býr í skóginum plantar enn þessum trjátegundum við húsin sín.