Ferðaskrifstofa Indíánanna



Víða í frumskóginum er allt krökkt af útlendingum sem eru þangað komnir til að sjá það svæði í heiminum sem þeir telja síðasta vígi óspilltrar náttúru. Venjulega græða ferðaskrifstofurnar stórfé á heimsóknum útlendinganna. En á einum stað í Ekvador hafa heimamenn séð við ferðaskrifstofunum. Indíánarnir opnuðu ferðaskrifstofu í næsta þorpi. Þeir eru sjálfir leiðsögumenn og taka öll verkin að sér, allt frá því að bóka ferðir til þess að sigla með ferðamennina á bátum sínum. Þetta gerir að verkum að enginn annar græðir á því að sýna heimkynni Indíánanna.

Sá sem á hugmyndina að þessu heitir Tarquino Tapuy. Hann segir að margir hafi verið vantrúaðir í upphafi. Sumum finnst niðurlægjandi að láta skoða sig eins og dýr í dýragarði. „Þeir sem eru andvígir þessu segja að ég vinni fyrir útlendingana. Ég svara því til að það hafi ég líka gert áður fyrr. Munurinn er sá að nú hirðum við ágóðann sjálf,“ segir Tarquino Tapuy.

Þetta fé hefur auðveldað fólki að bægja olíufélögunum frá þorpinu þar sem Tarquino á heima. Fyrir nokkrum árum kom hópur manna í þyrlu til þess að stunda jarðskjálftarannsóknir. Olíufélagið bauðst til að gefa þorpsbúum blakvöll og net ef leyfi fengist til að leita að olíu. Þegar þorpsbúar afþökkuðu, bauð félagið sem svarar 200.000 krónum. Aftur var afþakkað, en þá komu hermenn í þyrlum og skutu með vélbyssum upp í loftið og hótuðu Indíánunum; þeir ætluðu að fá þá til að láta að vilja olíufélagsins.

„Við héldum okkar striki því að ef við hefðum leyft þeim að leita að olíu, hefði dregið úr heimsóknum ferðamanna til okkar. Ferðamenn koma ekki hingað til að sjá borturna og mengun, þeir vilja sjá óspillta náttúru. Og við getum þénað meira á þeim en olíunni. Þannig geta peningarnir og ferðamennirnir hjálpað okkur að verja regnskóginn,“ segir Tarquino Tapuy.