Tónlist og leikhús



Uppáhaldshljóðfæri Indíánanna í Andesfjöllunum eru panflauta og charango, en það er lítill gítar. Charango er búinn til úr skrokk af beltisdýri. Þessi hljóðfæri eiga sér mörg hundruð ára sögu og hljóma enn úti í sveitaþorpunum.

Árum saman hefur fólk í stórborgum sýnt tónlist Indíánanna lítinn áhuga. Margir borgarbúar líta niður á Indíánana og segja þá lata og værukæra. Menning þeirra, sem sögð hefur verið frumstæð, hefur ekki átt upp á pallborðið í borgunum til skamms tíma.

En á allra síðustu árum hefur þetta breyst. Nú hlusta fleiri og fleiri unglingar í framhaldsskólum og háskólum á tónlist Indíánanna. Augu Bólivíumanna eru smám saman að opnast fyrir sínum eigin, sterka menningararfi.

Höfuðborgin La Paz

Á diskótekunum í La Plaz er alvanalegt að leika hefðbundna tónlist í einn eða tvo tíma á næturnar þegar gestirnir eru búnir að fá nóg af Madonnu og Michael Jackson. Það hefði verið óhugsandi fyrir tíu árum. Þessi þróun er samstiga því að áhrif Indíána hafa aukist í Bólivíu.