Sköpun heimsins

Indíánar trúa því að það hafi verið Andinn mikli sem skapaði heiminn. Hann hefur alltaf verið til, er mjög sterkur og ræður yfir öllu.

Ein af goðsögnum indíána skýrir sköpun heimsins á eftirfarandi hátt: Áður en Andinn mikli kom var auðn og tóm. Til að vekja jörðina kom hann sólinni fyrir á himninum svo að hún gæti veitt jörðinni yl. Skýin sem alltaf höfðu hulið jörðina leystust upp hægt og hægt og það fór að rigna. Það rigndi svo mikið að vatn streymdi um alla jörð.

Síðan mótaði Andinn mikli fjöll, ár og höf. Þannig fékk jörðin þá ásýnd sem hún hefur nú. Þar sem enn var mikill raki í jörðinni gat Andinn mikli líka mótað dýr og jurtir. Í hvert sinn sem hann hafði skapað eitthvað blés hann í það lífi. Þannig lifnaði allt. Svona hefur allt sem þú sérð orðið til.

Andinn mikli var kærleiksríkur, þess vegna töluðu dýrin saman. Þegar þau vantaði eitthvað fóru þau til Andans mikla og báðu hann að skapa það. Engu skipti hversu erfitt það var, Andinn mikli uppfyllti allar óskir þeirra, af því að hann taldi að allir ættu að vera glaðir og ánægðir. Þar kom að það voru aðeins aparnir sem fluttu Andanum mikla nýjar óskir. Dag nokkurn báðu þeir Andann mikla að leyfa sér að skapa eitthvað sjálfir.

Andinn mikli leit á apana og sagði: "Til þessa hefur enginn hér á jörðu þekkt ótta eða skelfingu. Ef ósk ykkar verður uppfyllt munu þeir sem skapa kynnast óttanum en þeir sem ekki skapa munu lifa lífi sínu óttalausir". Nokkrir apanna hurfu á braut. Þeir vildu ekki reyna. En aðrir urðu eftir til þess að reyna sjálfir að skapa eitthvað. Aparnir sem urðu eftir og reyndu á sköpunarhæfileika sína urðu að mönnum, en hinir sem ekki þorðu að reyna héldu áfram að vera apar.

Síðan þetta gerðist hefur maðurinn þekkt óttann.