Maðurinn í eyðimörkinni

Hvernig geta Búskmenn lifað af í eyðimörkinni?

Ef Evrópumaður er staddur að morgni í eyðimörk án matar, vatns og skugga og hitinn er 35 - 40 gráður missir hann u.þ.b. 1 lítra vantns úr líkamanum á klukkustund. Kælikerfi líkamans verður fyrir miklu álagi og framleiðir mikinn svita til að halda líkamshitanum undir 40 gráðum. Áður en kvöldar er þessi Evrópumaður búinn að léttast um 5-10 kíló. Ef hann fær ekki vatn næsta dag deyr hann.

Búskmenn og aðrir eyðimerkurbúar hafa lært að komast af í eyðimörkinni. Mikilvægast er hvernig þeir hafa lært að nýta sér náttúruna:

Á morgnana safna þeir morgundögginni, þannig fá þeir svolítið vatn.
Þeir þekkja lægðir í landslaginu þar sem hægt er að sjúga upp örlítið vatn með sogröri úr löngu strái. Þeir þekkja staði þar sem eru hulin vatnsból í sandinum eða við klettarætur og flytja vatnið í strútseggjum sem hafa verið blásin út. Þeir geyma vatnsbirgðir í strútseggjum sem grafin eru í sand og geymd til þurrkatímans.
Þeir safna vatns- og næringarríkum rótarhnýðum og ávöxtum, t.d. melónum.
Þeir borða saltan mat þannig að eðlilegt saltjafnvægi haldist í líkamanum.
Bæði karlar og konur vinna og fara til veiða á morgnana og á kvöldin. Heitustu stundir dagsins hvílist fólk í skugga af tré eða heimatilbúnu skýli úr trjágreinum.
Búskmenn hafa þróað með sér ótrúlega hæfileika til að rekja slóðir og veiða dýr eyðimerkurinnar. Þeir geta fylgt slóð antílópunnar í marga daga.

En Búskmenn hafa líka ýmsa meðfædda líkamlega eiginleika umfram okkur „hvítu“ Evrópubúana.

Í dökkri húð þeirra eru fleiri litafrumur sem verja þá gegn útfjólubláum geislum sólarinnar.
Svitakirtlar þeirra bregðast fljótar við og hringrás blóðsins er hraðari í ysta lagi húðarinnar. Þess vegna eiga þeir auðveldara með að jafna hitastig líkamans. Nýru þeirra vinna líka svolítið öðruvísi til að stjórna saltjafnvæginu í líkamanum.

Berðu þetta saman við þær varnir sem þú hefur gegn miklum kulda, hita, þornun og salttapi!