2012

Um vefinn

 

 


Trúarbragðavefurinn kemur til móts við vaxandi fjölmenningu í samfélaginu með það markmið að draga úr fordómum og bæta samskipti manna á milli. Trúarbrögð eru mikilvægur þáttur í allri menningu og áríðandi að börn jafnt sem fullorðnir tileinki sér umburðarlyndi gagnvart gildum annarra. Tekið skal fram að ekki aðhyllast allir trúarbrögð.


Á vefnum er að finna kynningu á fimm af áhrifamestu trúarbrögðum heims. Þau eru: Hindúatrú, búddadómur, gyðingdómur, íslam og kristni. Farið er yfir þætti sem flest trúarbrögð eiga sameiginlega eins og helgisagnir, siðfræði og helgiathafnir með það í huga að auðvelt sé að bera saman hvað er líkt og ólíkt með hverjum átrúnaði. Vefurinn er myndskreyttur og þar má finna gagnvirk verkefni, tenglasöfn og viðamikinn vefleiðangur um trúarbrögð. Auk þess er hægt er að sækja hvern kafla sem pdf-skjal til útprentunar og fylgja þá spurningar um efni hans sem nemendur geta unnið með sjálfstætt eða eftir fyrirmælum kennara.


Allt efni vefsins er hugsað til að vekja áhuga nemenda á efninu og þjálfa þá í sjálfstæðum vinnubrögðum og gagnrýnni hugsun. Með tilkomu hans opnast möguleikar fyrir kennara að samflétta trúarbragðakennslu við upplýsingamennt. Auk þess getur hann nýst sem uppflettivefur um trúarbrögð.


Höfundar efnisins eru Sigrún Eyþórsdóttir sem skrifaði kaflana um íslam, kristni og hluta gyðingdóms og Guðný Þorsteinsdóttir sem skrifaði kaflana um búddadóm, hindúatrú, hluta af gyðingdómi og spurningar. Guðný er einnig höfundur alls myndefnis og sá um hönnun og vefforritun.


Ritstjórar voru Ingólfur Steinsson og Harpa Pálmadóttir. Gunnar J. Gunnarsson lektor í trúarbragðafræði við Menntavísindasvið Háskóla Íslands fær sérstakar þakkir fyrir aðstoð og yfirlestur.


Námsgagnastofnun 2012