8 Kynning á námsefninu HVAÐ ER ÖRUGG SAMAN ? Námsefnið Örugg saman er forvarnarefni gegn ofbeldi í samböndum og inniheldur eftirfarandi þætti: 1. Sex kennslustundir um ofbeldi í samböndum og samskiptum 2. Veggspjaldasamkeppni 3. Bréf til foreldra 4. Verkefni fyrir nemendur (nemendahefti) Allt sem þú þarft að nota er að finna í þessu hefti. Hér á eftir fylgir stutt lýsing á hverjum þætti námsefnisins. SEX KENNSLUSTUNDIR Kennslustundirnar eru sex talsins og fjalla um viðhorf og hegðun sem tengist ofbeldi í samböndum og samskiptum. Hver kennslustund tekur um það bil 40 mínútur. Hægt er að kenna efnið á hverjum degi eða dreifa því yfir nokkrar vikur eftir þörfum. Einnig er hægt að kenna eina kennslustund yfir tvo samliggjandi tíma sem gefur meiri tíma fyrir umræður (sjá nánar í inngangsorðum bls. 5). VEGGSPJALDASAMKEPPNI Veggspjaldasamkeppni er góð leið til að styrkja þá meginþætti sem fram koma í námsefninu. Veggspjaldasamkeppnin er valkvæð og best er að hafa hana eftir að búið er að kenna námsefnið. Veggspjöld um ofbeldi í samböndum og samskiptum má hengja upp á veggjum skólans eða byggingum í nærsamfélaginu, svo sem bókasöfnum, félagsmiðstöðvum eða sundstöðum. Nemendur geta einnig notað veggspjöldin til kynningar í öðrum skólum eða fyrir aðra hópa í samfélaginu. Látið nemendur kjósa hvaða veggspjald þau halda mest upp á. BRÉF TIL FORELDRA Eins og með aðrar forvarnir er mikilvægt að foreldrar eða forráðamenn nemenda séu upplýstir um hvað er til umfjöllunar. Aftast í þessu hefti (bls. 68) er að finna foreldrabréf sem kynnir stuttlega innihald námsefnisins. Einnig er að finna tveggja síðna upplýsingablað (bls. 69-70) sem hægt er að senda foreldrum eða eiga tiltækt ef upp kemur sú staða að ræða þurfi málin við foreldra.
RkJQdWJsaXNoZXIy MjIxNzc=