Örugg saman - kennarahefti

7 • Hlusta: Ef nemandi kemur til þín og greinir frá því að hafa orðið fyrir ofbeldi þá skiptir miklu máli að þú gefir þér tíma til að hlusta. Ef nemandinn leitar til þín á stundu þegar þú getur ekki gefið þér góðan tíma þá er best að finna annan tíma þar sem þú hefur svigrúm til þess að ræða við nemann. • Ef nemandi brotnar niður í tíma er mikilvægt að gefa sér tíma til að sinna honum en jafnframt gefa honum tækifæri til að jafna sig, annað hvort með því að stíga út úr tíma eða svigrúm til að jafna sig í hópnum. Þú skalt hins vegar ekki ræða málið nánar að öllum hópnum viðstöddum heldur bjóða nemandanum að hitta þig einslega eftir tímann. • Ekki forðast vandann. Gríðarlega mikilvægt er að forðast ekki að takast á við vandann og láta eins og ekkert sé. • Fá upplýsingar um það sem gerðist. Fyrsta skrefið er að fá upplýsingar frá nemanum. Mikilvægt er að nota opnar spurningar og grípa ekki fram í fyrir nemanum heldur hvetja hann til að tjá sig (t.d. spyrja: „hvað gerðist svo, geturðu sagt mér meira?“). • Tilkynningarskylda. Mikilvægt er að lofa ekki algerum trúnaði eða að segja engum frá því samkvæmt lögum ber ávallt að tilkynna ofbeldi gegn barni undir 18 ára aldri til barnaverndaryfirvalda. • Fá aðstoð varðandi næstu skref. Gott er að hafa í huga að þú þarft ekki að hafa öll svörin á reiðum höndum við þessar aðstæður og nauðsynlegt getur verið að fá aðstoð við að ákveða hvernig best er að aðstoða nemandann. Þú getur leitað til aðila, sem geta leiðbeint þér, eins og t.d. barnaverndarnefndar í þínu sveitarfélagi, Barnahúss eða Neyðarmóttöku vegna kynferðisofbeldis á Landspítala. • Hjálp þín skiptir máli. Hafðu í huga að nemandi þarf mikið hugrekki til þess að segja frá því að hafa orðið fyrir ofbeldi. Með því að nemandinn greini frá skapast dýrmætt tækifæri til að vernda hann fyrir frekara ofbeldi, ef það er enn til staðar, og aðstoða hann við að fá þá hjálp sem nauðsynleg er til að vinna úr lífsreynslunni á farsælan hátt. Vonandi mun þetta námsefni koma þér að góðum notum og verða gagnleg viðbót við annað námsefni sem styður við velferð og vellíðan eldri grunnskólanema. Hægt er að hafa samband við starfsfólk á sviði áhrifaþátta heilbrigðis hjá Embætti landlæknis ef spurningar eða athugasemdir vakna við kennslu efnisins. Með kveðju, starfsfólk Embættis landlæknis.

RkJQdWJsaXNoZXIy MjIxNzc=