Örugg saman - kennarahefti

6 í tveimur samfelldum tímum, sem gefur meiri möguleika á umræðum og skoðanaskiptum meðal nemenda. Eins er hægt að skipta einni kennslustund niður á tvo tíma og hefur verið merkt við tvær kennslustundir í kennsluleiðbeiningunum, sem hentugt væri að skipta í tvo hluta, þar sem þær þóttu sérstaklega langar. 8. Í kennsluleiðbeiningunum eru myndir af þeim blaðsíðum í nemendahefti sem vísað er í hverju sinni. Nemendaheftið má einnig finna í heild sinni aftast í kennsluleiðbeiningunum. 9. Mikilvægt er að taka fram að nemendur þurfi ekki að hafa reynslu af ástarsamböndum til þess að nýta sér námsefnið og ekki sé verið að hvetja þá til þess með kennslunni. Það sem kemur fram í Örugg saman gildir um öll náin samskipti, þ.m.t. við fjölskyldu og vini. Gott er að ítreka þetta oft við nemendur. 10. Mælt er með því að nemendahópnum sé skipt eftir kyni. Reynsla af forprófun leiddi í ljós að kennurum fannst nemendur eiga auðveldara með að tjá sig um efnið ef strákar og stelpur voru sér. Aftur á móti geta kennarar ákveðið að hafa kynin saman þegar ákveðin efni eru tekin fyrir og verður mat kennarans að ráða því. 11. Eindregið er mælt með því að nemendahópurinn setjist í hring eða sófa þar sem hægt er að koma því við. Þetta stuðlar að rólegri, traustvekjandi og afslappaðri stemningu sem hvetur nemendur til að tjá sig um námsefnið. 12. Þegar það hentar getur verið gott að kenna efnið í félagsmiðstöðvum og sérstaklega ef samstarf getur orðið milli félagsmiðstöðvar og skóla, t.d. að sumir tímar fari fram í skólanum en aðrir í félagsmiðstöðinni. Þá geta tveir aðilar sameinast um kennsluna og þannig yrði t.d. auðveldara að skipta hópnum eftir kyni. Þó þarf að gæta þess að þetta fyrirkomulag leiði ekki til verri mætingar. 13. Mælt er með að kennarar haldi eftir nemendaheftum hjá sér á milli tíma þannig að heftin týnist ekki eða glatist. Að lokinni síðustu kennslustund taka nemendur svo heftin með sér heim og eru minntir á að þar hafi þeir upplýsingar og fróðleik sem þeir geti nýtt sér í framtíðinni. 14. Við það að fara í gegnum námsefni af þessu tagi getur verið, og er í raun æskilegt, að nemandi sem hefur orðið fyrir ofbeldi ákveði að greina einhverjum sem hann treystir frá reynslu sinni. Það getur verið að annar aðili, en sá sem kennir námsefnið, verði fyrir valinu, t.d. íþróttakennari, námsráðgjafi eða annar starfsmaður sem nemandinn hefur myndað tengsl við. Af þessum sökum er æskilegt að það verði kynnt á kennarafundi, og helst starfsmannafundi, að kenna eigi námsefnið í ákveðnum bekkjum þannig að allir starfsmenn séu undir það búnir ef nemandi ákveður að leita til þeirra og greina frá erfiðri reynslu. Mikilvægt er að atriðin hér fyrir neðan verði kynnt fyrir öllu starfsfólki skólans og ættu atriði sem þessi að vera hluti af viðbragðsáætlun skólans við ofbeldi. 15. Algengt er að kennarar óttist að bregðast rangt við ef nemandi greinir frá því að hafa orðið fyrir ofbeldi eða ef nemandi brotnar niður í tíma. Þessi ótti er skiljanlegur því flestir hafa ekki reynslu af því að takast á við slíkar aðstæður. Við slíkar aðstæður er mikilvægt að hafa í huga að það að nemandi greini frá ofbeldi eða upplifi tilfinningalegt uppnám í tíma er ekki skaðlegt fyrir hann þó það geti verið erfitt. Hér er um að ræða dýrmætt tækifæri til að veita nemandanum aðstoð í aðstæðum sem hann ætti aldrei að þurfa að takast á við einn. Mikilvægt er að hafa eftirfarandi atriði í huga:

RkJQdWJsaXNoZXIy MjIxNzc=