40 Útskýrið: Eins og þið sjáið geta ofbeldissambönd verið ansi flókin. Þið tókuð ólíka afstöðu til ýmissa atriða í frásögninni. Við bregðumst við á ólíkan hátt. Nú mega allir fá sér sæti aftur. Þið ykkar sem stóðuð undir skiltinu ,,Ég vil vera“ þegar sögunni lauk, af hverju mynduð þið vera áfram í sambandi við Maríu? Skrifið svör nemenda á töfluna. Detta ykkur í hug einhverjar aðrar ástæður fyrir því að Kristján vilji halda áfram að vera með Maríu? Skrifið svör nemenda á töfluna. Þetta eru allt góðar og gildar ástæður. Það eru margar skýringar á því að fólk vill ekki slíta sambandi, jafnvel þó að ofbeldi eigi sér stað innan þess. Þegar þið spyrjið þolanda ofbeldis ,,Af hverju fórstu ekki bara?“ getur viðkomandi fundist að þið séuð að kenna honum um ofbeldið. Með því að spyrja þannig kemur í ljós að þið skiljið ekki vanda vinar ykkar. Fólk heldur áfram að vera saman af ýmsum ólíkum ástæðum: Af því að það er ástfangið, af því að það heldur að hið slæma muni hverfa og góðu atriðin verði eftir, af því að því finnst það bera ábyrgð á ofbeldinu, af því að það kennir sjálfu sér um, af því að það vill hjálpa hinni manneskjunni og svo mætti lengi telja. Af hverju er erfitt að leita sér hjálpar? Markmið annars hluta er að nemendur átti sig á hversu erfitt getur reynst að leita sér hjálpar og jafnframt að útskýra hvers vegna fólk, sem býr við ofbeldi, leitar sér ekki oftar aðstoðar. Þrjár ástæður eru fyrir því að láta nemendur velta betur fyrir sér hvers vegna fólk leitar ekki oftar aðstoðar en raun ber vitni: 1) Vinirnir þurfa að skilja af hverju þolendur ofbeldis geta verið hikandi við að leita sér aðstoðar, 2) Þolendurnir þurfa að finna fyrir skilningi vinanna, og 3) Vinirnir þurfa að átta sig á því að flestum, sem eru í ofbeldisfullu sambandi, reynist mjög erfitt að leita sér hjálpar. Útskýrið: Þegar hjálpa þarf vini sem er í ofbeldisfullu sambandi er mikilvægt að skilja að viðkomandi getur átt erfitt með að leita sér aðstoðar. Þetta er sá tími sem þolandinn þarf virkilega á vini sínum að halda. Ef vinurinn skilur ekki ótta þolandans getur honum reynst mjög erfitt að gefa góð og gagnleg ráð. Af hverju haldið þið að þolendum reynist erfitt að segja öðrum frá ofbeldi eða kúgun sem þeir verða fyrir í nánu sambandi? Skrifið svör nemenda á töfluna. 2. hluti 15 mín
RkJQdWJsaXNoZXIy MjIxNzc=