Örugg saman - kennarahefti

19 Hugmyndin að baki: Fyrsta kennslustundin á að vera skemmtileg og fá nemendur til að hugsa um hvernig þeir myndu vilja láta koma fram við sig í nánu sambandi. Lögð er áhersla á að maður hafi eitthvað um það að segja (geti sett mörk) um hvernig er komið fram við mann og valið hvernig maður kemur fram við aðra. Þessi ákvörðunarréttur er rauði þráðurinn í námsefninu og mikilvægt að ungt fólk hugleiði hann áður en það stofnar til náinna sambanda. Námsefnið getur nýst þeim sem eru komnir í samband þar sem ofbeldi eða misnotkun á sér stað en því er líka ætlað að koma í veg fyrir að unglingar lendi í slíku sambandi. Námsefnið hentar því unglingum, hvort sem þeir eru farnir að vera á föstu eða ekki, og hvort sem þeir hafa kynnst ofbeldi af eigin raun eða ekki. Nánast allir hafa skoðun á því viðkvæma málefni sem ofbeldi og kúgun í nánum samböndum er. Stundum geta umræður um efnið snert fólk á mjög persónulegan hátt. Hafið það í huga. Kennari þarf að vera undir það búinn að heyra hluti sem hann er ósammála. Helsta markmið fyrstu kennslustundar er að örva umræður þar sem ólík sjónarmið fá að koma fram. Í umræðum munu ýmis umdeild málefni koma til skoðunar. Kennaranum getur þótt óþægilegt að taka ekki sjálfur á hverju málefni sem upp kemur en hlutverk hans er hins vegar að ná fram öllum skoðunum á merkingu orðanna kúgun og ofbeldi og útskýra hvaða merkingu þessi orð hafa í þessu námsefni. Í lok tímans er líklegt að einhverjir lausir endar verði eftir. Það er eðlilegt enda verið að fara yfir margþætt efni á stuttum tíma. Næstu tímar munu þó gefa tækifæri til frekari umræðna og útskýringa.

RkJQdWJsaXNoZXIy MjIxNzc=