12 6. Ekki leyfa nemendum að sýna af sér níðingslega eða ofbeldisfulla hegðun þegar farið er í hlutverkaleiki. Hlutverkaleikirnir í námsefninu eru skrifaðir til að koma í veg fyrir slíkt en það þarf þó að vera á verði gagnvart því. 7. Sýnið öllum nemendum virðingu og varfærni þegar verið er að tala um kynferðisleg mál. Sumir nemenda eiga auðvelt með að tala um kynlíf eða kynferðislegt ofbeldi en aðrir ekki. Hafið í huga hversu stóran þátt mismunandi menning getur leikið þegar fjallað er um ofbeldi í samböndum og samskiptum. Sumir nemendur eru með þannig bakgrunn að það er erfiðara að takast á við málefni sem þessi (til dæmis er í sumum menningarheimum litið illu auga að strákur og stelpa séu ein saman; ef nemandi er að hitta kærasta eða kærustu á laun getur verið erfitt að leita aðstoðar vegna ofbeldis). FLEIRI ATRIÐI TIL AÐ HAFA Í HUGA ÞEGAR VERIÐ ER AÐ KENNA ÖRUGG SAMAN Hvað ef nemandi segir frá því að hann eða vinur sé þolandi eða gerandi ofbeldis í samböndum eða samskiptum? Þegar þú ert að kenna Örugg saman getur það gerst að nemandi segi frá því að hann sé þolandi eða gerandi ofbeldis í samböndum eða samskiptum. Það er mikilvægt að láta nemendur vita áður en þú byrjar að kenna efnið hvað þú munir gera fáir þú slíkar upplýsingar svo að þeim finnist þau ekki veidd í gildru eða þau svikin vegna viðbragða þinna. Áður en þú kennir Örugg saman skaltu athuga hvort skólinn þinn sé með skráða stefnu um hvernig bregðast skuli við vitneskju um ofbeldi. Hafðu einnig samband við athvörf, neyðarmóttökur eða opinbera aðila í nærsamfélaginu þér til leiðsagnar. Á Íslandi er kveðið á um tilkynningarskyldu í barnaverndarlögum ef einhver verður þess áskynja að barn verði fyrir ofbeldi eða vanrækslu. Þetta hlutverk er sérstaklega mikilvægt meðal þeirra sem vinna með börnum. Ef nemandi greinir frá ofbeldi í umræðum í tíma skaltu ekki halda áfram að ræða það að öllum viðstöddum. Bjóddu nemandanum að ræða einslega við þig eftir tímann og skrifaðu niður allar upplýsingar sem nemandi veitir (sjá nánar í inngangsorðum, bls. 7). Ekki reyna að leysa málið upp á eigin spýtur. Hafðu samráð við viðeigandi aðila innan skólans og foreldra eða forráðamenn nemandans. Brýndu fyrir nemendum að fylgja eftirfarandi reglum þegar einhver segir frá ofbeldi í samböndum eða samskiptum: • Ekki bera út kjaftasögur. Samræðurnar í tímum eru einkamál. Segið ekki öðrum frá nema með leyfi þess sem segir frá. • Leggið trúnað á frásögnina. Hlustið og trúið þolandanum. Virðið tilfinningar þolandans og látið hann finna að hann standi ekki einn.
RkJQdWJsaXNoZXIy MjIxNzc=