8 | Framhaldsskólinn 2890 | Menntamálastofnun 2023 | Kennslustofan sem öruggara rými Hugmyndin um kennslustofuna sem öruggt rými vísar til þess að þar eigi nemendum að finnast þau nógu örugg til að geta tekið áhættu, tjáð skoðanir sínar heiðarlega og deilt eigin þekkingu, viðhorfum og reynslu. Ekki dugir að eingöngu lýsa því yfir að kennslustofan sé öruggt rými heldur verður að vinna markvisst að því. Það er t.d. hægt að gera í samvinnu við nemendur; spyrja hvaða merkingu þau leggi í hugtakið og hvernig þau sjái fyrir sér að hægt sé að stuðla að öruggara andrúmslofti í kennslustofunni. Einna mikilvægast í þessu samhengi er að hvetja nemendur til að gæta að orðalagi; að nemendur og kennarar tali af virðingu um annað fólk, ekki síst í ljósi þess að við þekkjum ekki reynsluheim allra í kennslustofunni. Engu að síður er mikilvægt að nemendur finni að þeir geti spurt þeirra spurninga sem á þeim brenna. Það getur verið erfitt að samræma þetta tvennt; nærgætni fyrir samnemendum og frelsi til þess að spyrja um eitthvað sem gæti mögulega verið særandi. Með því að ræða við nemendahópinn um hvernig nærgætni og virðing virka á báða bóga, má stuðla að öruggara umræðurými. Kennarinn þarf að finna þann tón sem hentar sér og sínum nemendahópi en þumalputtareglan er þó sú að vera ekki of hress en ekki eins og við jarðarför þótt efnið sé þungt. Einnig má gera ráð fyrir því að eftir kennslustundir þar sem ofbeldi er til umræðu, komi nemendur og óski eftir því að fá kennara á eintal. Það getur verið allt frá því að fá svar við einföldum spurningum upp í að greina frá ofbeldisreynslu. Þá er mikilvægt fyrir kennara að vera meðvitaður um viðbrögð þegar nemandi greinir frá ofbeldi (sjá gátlista aftar). Vá-viðvaranir Reynsla nemenda af kynbundnu eða kynferðislegu ofbeldi er æði ólík. Kennari mætti því temja sér að setja „vá-viðvörun“ (e. trigger warning) eða „efnisviðvörun“ fyrir slíka fræðslu og koma til móts við þá nemendur sem treysta sér ekki til þess að vera viðstaddir umræðu um efnið (sjá umfjöllun um nálgunina hér: VARÚÐ – hætta á váhrifum). Gefum viðvörunina með góðum fyrirvara og svo aftur við upphaf kennslustundarinnar. Í sumum tilvikum er hægt að bjóða nemendum að vinna verkefni frekar en að taka þátt í umræðutímum um efnið. Mikilvægt er þó að útskýra fyrir nemendum að almenn umfjöllun um ofbeldi gæti gagnast þeim sem hafa orðið fyrir ofbeldi – til þess að átta sig á að þau eru ekki ein og að sökin sé ekki þeirra. Einnig geti þau öðlast tól og orðaforða til að vinna úr reynslu sinni. Reynsla höfunda þessa texta hefur verið sú að flest kjósa að mæta í kennslustundina en eru þakklát fyrir að geta undirbúið sig andlega fyrir umfjöllunina og umræður. Upplifun tveggja aðila af kynferðisofbeldi getur verið gjörólík. Þrátt fyrir að gerandi hafi alls ekki alltaf einbeittan brotavilja, situr ávallt eftir brotaþoli með afleiðingar. Kennari þarf að vera meðvitaður um að í nemendahópnum eru að öllum líkindum brotaþolar kynferðisofbeldis.
RkJQdWJsaXNoZXIy MjIxNzc=