Kynbundið ofbeldi og skólakerfið - kennarahandbók

7 | Framhaldsskólinn 2890 | Menntamálastofnun 2023 | Mikilvæg fyrstu skref kennarans Umfjöllun um kynferðislegt ofbeldi er þess eðlis að vanda þarf vel til verka. Mikilvægt er að kynna sér þessar leiðbeiningar um hvernig best er að nálgast þennan viðkvæma málaflokk, áður en farið er með fræðsluefnið inn í kennsluumhverfi. Ekki er nóg að skella hugtökum og skilgreiningum fyrir framan nemendur heldur þarf kennari að hafa kafað í efnið, skoðað sín eigin viðhorf og vera viðbúinn ýmiskonar erfiðum umræðum og uppákomum í kennslustundinni. Kennari þarf að vera meðvitaður um að í nemendahópnum eru að öllum líkindum brotaþolar kynferðisofbeldis, því samkvæmt gögnum Stígamóta voru 70% þeirra fjölmörgu sem þangað leita, undir 18 ára aldri þegar þau urðu fyrir ofbeldinu. Oft voru gerendur þeirra á svipuðum aldri en u.þ.b. 60% þeirra sem beittu ofbeldinu voru undir þrítugu. Því má einnig gera ráð fyrir gerendum í nemendahópum og vert er að hafa í huga að sama manneskja getur verið bæði brotaþoli og gerandi. Loks eru allar líkur á að nemendur þekki til ofbeldismála sem aðstandendur brotaþola og/eða geranda. Kennari þarf að geta brugðist við á gagnlegan hátt ef ungmenni opna á erfiða lífsreynslu, svo þau fái tækifæri til þess að tjá sig um upplifun sína og leiðbeiningar um hvar þau geti fengið frekari aðstoð. Því er mikilvægt að vanda vel orðalag og vera vakandi fyrir viðbrögðum nemenda. Með því að undirbúa bæði sig og nemendahópinn er hægt að hafa fræðsluna þolendamiðaða en markmiðið með því er að draga úr líkum á að fræðslan valdi frekari skaða hjá brotaþolum ofbeldis. Staða nemenda er fjölbreytt og kennari þarf að geta brugðist við hverju máli fyrir sig en hér neðar er gátlisti fyrir slíkar aðstæður. Loks snýr fræðsla um kynferðisofbeldi fyrst og fremst um að reyna að koma í veg fyrir ofbeldi í framtíðinni en allir gerendur voru jú eitt sinn nemendur í skólastofu. Þessa ábyrgð skyldi hver kennari taka alvarlega og vinna (í kennslustofunni og utan hennar) gegn skaðlegum viðhorfum sem geta leitt til kynferðisofbeldis. Fræðum okkur Fagfólki af ýmsu tagi er oft boðið inn í framhaldsskóla til að fræða nemendahópinn um t.d. ofbeldi, kynlíf, samskipti, klám eða annað viðkvæmt efni. Þessa utanaðkomandi fræðslu ætti kennari aldrei að líta á sem kennslupásu, heldur vera áfram í stofunni með nemendum. Mikilvægt er að hann geti gripið inn í ef erfiðar tilfinningar vakna og/eða varhugaverð umræða fer af stað. Kennari ber ábyrgð á sínum nemendahópi, ekki síst þegar um ræðir nemendur undir 18 ára aldri en nýnemar eru í flestum skólum einn helsti markhópur slíkrar fræðslu. Mikilvægt er að kennarar nýti tækifærin, þegar ungmennin eru frædd, til að fræðast sjálfir. Kennarar ættu ekki að láta fræðslu á sal á t.d. þemadögum fram hjá sér fara. Fræðsluerindi sem þessi eru mikilvæg tækifæri til endurmenntunar. Í gegnum þau má fræðast um flókin málefni af fagaðilum sem vinna með þau alla daga og geta veitt innsýn í stöðuna og áherslur hverju sinni. Loks verða forvarnir í skólum að vera sjálfbærar og áhugavert erindi gestafyrirlesara mun án vafa vekja spurningar, vangaveltur og umræðu nemendahópsins. Þá er lykilatriði að kennarinn hafi sjálfur fræðst og geti tekið umræðuna áfram með nemendum þegar fyrirlesarinn er á bak og burt.

RkJQdWJsaXNoZXIy MjIxNzc=