53 | Framhaldsskólinn 2890 | Menntamálastofnun 2023 | Þöglu þolendurnir Í raun höfum við litla hugmynd um raunverulegt umfang kynferðisofbeldis í íslensku samfélagi en ljóst er að það er mun útbreiddara en flest fólk gerir sér grein fyrir. Dómar, kærur og tilkynningar til lögreglu gefa alls ekki rétta mynd af fjölda kynferðisbrota því aðeins lítið hlutfall málanna endar á borði lögreglu, tölur frá stuðningsúrræðum fyrir brotaþola eru margfalt hærri. Líkt og fram hefur komið sýna gögn Stígamóta að 70% brotaþola sem þangað leita urðu fyrir broti á barnsaldri en fæst barnanna sögðu frá ofbeldinu á þeim tíma. Einnig er víst að sumir brotaþolar leita sér aldrei hjálpar og segja engum frá reynslu sinni. Af hverju segja þau ekki frá? Ástæður þess að ungur brotaþoli kynferðisofbeldis (og raunar á öllum aldri) er ólíklegur til að tilkynna brotið eru margvíslegar. Brotaþolar eiga oft erfitt með að skilgreina kynferðislegt og annað kynbundið ofbeldi, í það minnsta þegar um ræðir þeirra eigin reynslu. Vegna reynsluleysis hafa ungir brotaþolar oft takmarkaða þekkingu og skilning á því hvað sé eðlilegt í samböndum og í kynlífi og hvað sé ofbeldi. Að segja frá ofbeldisreynslu er flókið skref þegar viðkomandi er alls ekki viss um hvort um ofbeldi hafi í raun verið að ræða, sér í lagi þegar við bætist sjálfsásökun. Algengustu afleiðingar af því að verða fyrir kynferðisofbeldi eru skömm og sektarkennd og þessar tilfinningar brotaþolans geta gert óyfirstíganlegt að opna sig um reynsluna. Nauðgunarmýturnar fyrrnefndu hamla mörgum brotaþolum að sjá ofbeldið í réttu ljósi, því oft passar reynslan illa við samfélagsmýtuna um „ekta“ nauðgun. Stundum finnst brotaþola atvikið ekki geta hafa verið ofbeldi vegna eigin viðbragða en viðbrögð brotaþola eru alls konar og öll eðlileg. Það er ekki gerlegt að bregðast rangt við því að verða fyrir kynferðisofbeldi. Algengt er að líkaminn frjósi og stundum er brotaþoli ekki í aðstöðu til að gefa samþykki, t.d. vegna ölvunar eða svefndrunga. Ýmiss konar kringumstæður geta einnig valdið því að fólk upplifir sig ekki öruggt til að segja nei, eða finnst aðstæður og/eða tengsl við gerandann ekki leyfa það. Sú sára
RkJQdWJsaXNoZXIy MjIxNzc=