Kynbundið ofbeldi og skólakerfið - kennarahandbók

51 | Framhaldsskólinn 2890 | Menntamálastofnun 2023 | Druslustimplun Druslustimplun (slut shaming) er áfellisdómur hópsins yfir stelpu, sem byggir á því að viðkomandi falli á einhvern máta ekki undir væntingar samfélagsins til kyn- eða kynlífshegðunar kvenna; hugmyndir og viðhorf í skólamenningunni um kvenleika og það sem er talið viðeigandi og ekki viðeigandi fyrir stúlkur. Stelpur sem þykja of kynferðislegar á einhvern hátt eru niðurlægðar eða þeim jafnvel útskúfað. Brotaþola er gert að skammast sín fyrir kynverund sína, en í raun hefur druslustimplun lítið að gera með kynlíf heldur valdatengsl og misrétti. Stúlka getur orðið fyrir druslustimplun vegna fjölda bólfélaga eða áhuga sínum á kynlífi en einnig ef gert er ráð fyrir að hún sé „lauslát“. Til dæmis út frá klæðnaði hennar eða einfaldlega af því hún verður snemma líkamlega kynþroska. Stúlka sem hefur orðið fyrir kynferðisofbeldi á í sérlegri hættu á að verða fyrir druslustimplun, vegna lífseigra viðhorfa um að brotaþolar kalli ofbeldið yfir sig með einhverjum hætti. Stundum hefur druslustimplun ekki minnstu tengsl við kynferðislega hegðun heldur er einfaldlega hentugt vopn í einelti gegn stúlku sem á einhvern hátt passar ekki í hópinn, tekur sér pláss eða ógnar valdastöðu annarra. Eineltið tengist einnig stéttskiptingu þar sem stelpur í efri stéttum eiga í minni hættu að vera stimplaðar sem druslur í skólanum, þrátt fyrir að hafa átt marga bólfélaga. En druslustimpla jafnvel sjálfar stúlkur í lægri stéttum fyrir minniháttar atvik. Í raun eiga allar stelpur í hættu á að verða fyrir slíku einelti, druslustimplun ógnar því almennt velferð stúlkna og ógnin er enn meiri með tilkomu internetins. Eineltið er oft nýtt sem vopn gegn konum sem trufla kynjakerfið, svo sem með að berjast fyrir jafnrétti eða taka sér rými í opinberri umræðu en slík dæmi má finna jafnt í dag og á öldum áður. Einelti, sem breytir kynverund kvenna í vopn gegn þeim, byggir á samfélagslegu kynjakerfi tvöfalds siðgæðis. Konur lækka iðulega í virðingarstiganum fyrir að sofa hjá mörgum og fela því oft kynlífsreynslu sína til að fá ekki á sig druslustimpil. Öfugt við karlmenn sem eru líklegri til að hljóta virðingu og viðurkenningu fyrir marga rekkjunauta. Druslustimplun virkar því vel til að ráðast að stelpu eða halda henni niðri á einhvern hátt og á þannig þátt í að viðhalda kynjamisrétti. Stelpur eru þó ekki síður líklegar til að druslustimpla kynsystur sínar og taka þannig þátt í að viðhalda menningu sem bitnar á þeim sjálfum. Kynferðiseinelti af þessu tagi getur haft sömu og jafn alvarlegar afleiðingar fyrir brotaþola og af því að verða fyrir öðru kynferðisofbeldi. Rannsóknir hafa sýnt að þegar stelpur byrja að stunda kynlíf óttast þær mun frekar að verða fyrir druslusmánun en að fá kynsjúkdóm.

RkJQdWJsaXNoZXIy MjIxNzc=