Kynbundið ofbeldi og skólakerfið - kennarahandbók

48 | Framhaldsskólinn 2890 | Menntamálastofnun 2023 | Lög um kynferðislega friðhelgi Kannski er ekki skrýtið að yngsta fólkið vandræðist með þennan samskiptamáta þegar sjálfur löggjafinn kvað ekki á um stafrænt ofbeldi fyrr en árið 2021 þegar lagagrein um „kynferðislega friðhelgi“ bættist við almenn hegningarlög. Þar segir: Hver sem í heimildarleysi útbýr, aflar sér, dreifir eða birtir ljósmynd, kvikmynd, texta eða sambærilegt efni af eða um nekt eða kynferðislega háttsemi annars skal sæta sektum eða fangelsi allt að 2 árum, en 4 árum sé brotið stórfellt. Einnig er óheimilt að hóta slíkri birtingu eða dreifingu. Þá varðar það einnig sektum eða allt að eins árs fangelsi að dreifa, afrita, sýna eða hnýsast í gögn um einkamálefni annars. Internetið gerir þetta þó allt erfiðara. Ef nektarmynd ratar á netið eru miklar líkur á að hún dreifist á t.d. klámsíður og spjallborð og þá er ekki lengur hægt að eyða myndinni. Reynst getur ógerningur fyrir lögreglu að finna hvar slíkar síður eru hýstar og hvaða aðilar standa fyrir þeim. Þá njóta notendur nafnleyndar á þessum síðum. Netheimar hafa engin landamæri, þótt ýmis ríki hafi sett löggjöf til að stemma stigu við stafrænu ofbeldi er auðvelt að dreifa efni nafnlaust á netinu og þá jafnvel á síður þar sem lög í eigin landi gilda ekki. Samskiptamiðlar, leitarsíður, netþjónar og vefsíður eru sjaldan lagalega skyldug. Fræðsla hefur því mun meira að segja en löggjöf og í grunninn er þetta ósköp einfalt: Öll ráðum við sjálf yfir eigin líkama og stjórnum því með hverjum við deilum honum, jafnt á netinu sem og annars staðar. Mörk fólks þarf að virða alls staðar og samþykki að vera á hreinu í öllum samskiptum. Stafrænt ofbeldi og áreitni er mjög alvarlegt, skaðlegt og ólöglegt. Afleiðingar stafræns kynferðisofbeldis Ekki allir átta sig á því hversu alvarlegt og skaðlegt stafrænt kynferðisofbeldi er „… því það sé nú ekki eins og viðkomandi hafi verið nauðgað“ en brotið er hrottaleg aðför að einkalífi og friðhelgi brotaþolans og afleiðingar þess svipaðar og af líkamlegu kynferðisofbeldi. Til viðbótar má segja að stafrænu ofbeldi ljúki aldrei, því næsta ómögulegt er að stöðva dreifingu efnis um netheima. Jafnvel eru slíkar myndir merktar persónuupplýsingum brotaþolans svo hver sem er getur hnotið um myndirnar um ókomna tíð, svo sem tilvonandi atvinnurekendur í leit að upplýsingum um umsækjandann eða nýja tengdafjölskyldan að forvitnast. Því ber að taka mjög alvarlega ef nemandi upplýsir um slíkt brot – sem brotaþoli, gerandi eða vitni. Auk persónulegra afleiðinga fyrir hvern brotaþola hefur stafrænt kynferðisofbeldi orðið áhrifamikið vopn til að þagga niður í stúlkum og konum. Vegna ógnarinnar sem sífellt vofir yfir verða stelpur hræddari við að tjá sig eða gefa færi á sér, svo kynbundið stafrænt ofbeldi vinnur gegn samfélagsþátttöku ungra kvenna og þarf að taka afar föstum tökum.

RkJQdWJsaXNoZXIy MjIxNzc=