47 | Framhaldsskólinn 2890 | Menntamálastofnun 2023 | hafi, slíku má aldrei deila áfram til annarra. Kenna þarf hverju ungmenni að vera aðilinn sem stoppar rafrænar keðjur ofbeldis. Sumum myndum er hlaðið upp á spjallþræði þar sem karlmenn kalla eftir myndum af nafngreindum stelpum og skrifa kvenfjandsamlegar og niðurlægjandi athugasemdir við þær myndir sem eru á síðunni. Gjarnan fylgja með sem mestar persónuupplýsingar um viðkomandi stúlku til að hámarka skaðann. Stór hluti þessara brotaþola eru börn. Slíkar síður eru gjarnan kallaðar hrelliklámssíður en athugið að „hrelliklám“ og „hefndarklám“ eru af ýmsum ástæðum úrelt hugtök, við tölum í dag um stafrænt kynferðisofbeldi. Þolendaskömmun varðandi stafrænt kynferðisofbeldi Gjarnan ríkir misskilningur um bæði eðli og alvarleika stafræns ofbeldis. Líkt og í öðrum kynferðislegum samskiptum er það ekki athöfnin sjálf heldur skortur á samþykki sem skilgreinir ofbeldið. Grundvallarmunur er á kynferðislegu efni sem gengur á milli tengdra aðila með samþykki og efni sem fer í dreifingu án samþykkis (eða er aflað með hótunum). „Ekki senda svona myndir“ er því ekki raunhæf forvarnafræðsla hvað stafrænt ofbeldi varðar, ekki frekar en „ekki vera full eða ögrandi klædd“ er forvörn gegn því að verða fyrir líkamlegu kynferðisofbeldi. Ef brotið er á manneskju með þessum hætti er brotaþoli aldrei ábyrgur, frekar en brotaþolar annars kynferðisofbeldis og ungmenni í slíkri stöðu verða að geta treyst á stuðning en ekki ásakanir. Að einblína á hegðun brotaþola er þolendaskömmun og gerendameðvirkni – sama hvernig kynferðisbrot sem um ræðir. Íslenskur geðlæknir sagði eitt sinn opinberlega: „Það sem einkennir konur í samskipti við netið er þessi trúgirni… konurnar eru að senda af sér nektarmyndir af brjóstum eða kynfærum til einhvers sem þær treysta - einhver elskhugi sem tekur myndina og svo þegar sambandið súrnar þá náttúrulega setur hann myndina á netið og þá er konan allt í einu orðin ægilegt fórnarlamb, hefur verið svikin og þvíumlíkt. En hún getur engum um kennt nema sjálfri sér því það bera allir ábyrgð á því sem þeir setja á netið sjálfir.“ Stafræn samskipti eru orðin sjálfsagður hluti af tilhugalífi ungs fólks; leið þeirra til að tjá og kanna eigin kynverund og eiga í kynferðislegum samskiptum án hættunnar á getnaði eða kynsjúkdómasmiti. Þótt myndsending eða önnur rafræn samskipti séu samþykkt á milli tveggja aðila, gefur það alls ekki leyfi til að deila því með óviðkomandi fólki. Ekki frekar en að búast megi við að allur vinahópur rekkjunautar mæti til að taka þátt í kynlífi sem tvær manneskjur hafa ákveðið að stunda saman. Engin manneskja á að þurfa að ganga út frá því í nánum samskiptum að friðhelgi og trúnaður verði líklega brotinn, traust og virðing er grunnur náinna samskipta. Enginn er bara náttúrulega ofbeldismaður sem vanvirðir mörk og samþykki og annað fólk verði einfaldlega að gæta sín á viðkomandi. Kenna þarf hverju ungmenni – fyrst og fremst hópnum sem helst eru gerendur kynbundins ofbeldis – að bera ábyrgð og beita ekki ofbeldishegðun af nokkru tagi. Til viðbótar er málið alls ekki svo einfalt að slíkt ofbeldi byggi ávallt á mynd sem brotaþoli sendi sjálfur á aðra manneskju í góðri trú á viðtakandanum. Stundum eru myndir teknar í óleyfi, t.d. af sofandi eða rænulausri manneskju (oft kallað „up-skirting“). Myndum er einnig stolið úr einkaeign, t.d. af síma, eða brotist er inn í vefmyndavél með rafrænu hakki. Stundum eru myndir falsaðar í myndvinnsluforriti, höfuð manneskju t.d. skeytt við líkama úr klámmynd („deep fake“). Allt eru þetta alvarleg brot. Jafnvel fölsuð nektarmynd sem er búin til sem lélegt grín getur haft alvarlegar afleiðingar. Fari slík mynd á netið er ekki víst að aðrir átti sig á því að myndin sé fölsuð og afleiðingarnar geta orðið þær sömu og ef manneskjan væri í rauninni á myndinni.
RkJQdWJsaXNoZXIy MjIxNzc=