Kynbundið ofbeldi og skólakerfið - kennarahandbók

44 | Framhaldsskólinn 2890 | Menntamálastofnun 2023 | rígfastan í ofbeldissambandinu þrátt fyrir að búa enn í foreldrahúsum og deila ekki eignum eða börnum með makanum. Allt er þetta partur af ofbeldinu svo „af hverju hættirðu ekki bara í sambandinu?“ er bæði óraunhæf krafa á brotaþola ofbeldis og skaðleg þolendaskömmun. Ungmenni í slíkri stöðu gæti einmitt þurft mikinn stuðning við að skilja eigin reynslu, setja orð á ofbeldið og vinna gegn sjálfsásökun og skömm. Ásetningur og brotavilji Sú staðreynd að gerendur kynferðisofbeldis eru svo oft ástvinir getur verið erfitt að kyngja. Hrottalegur glæpur af þessu tagi hlýtur að vera framinn af siðblindum skrímslum, ekki þeim sem við þekkjum og treystum, elskum jafnvel og kjósum að stunda kynlíf með. En málið er að línan á milli kynlífs og kynferðisofbeldis getur verið afar fín. Einlægt samþykki er sú lína. Kynferðisofbeldi er ekki skilgreint af tengslum á milli fólksins eða líkamlegri valdbeitingu, heldur hvort „kynlífið“ var eitthvað sem báða aðila langar að taka þátt í. Ásetningur gerandans er ekki það sem skilgreinir brotið heldur upplifun brotaþolans. Upplifun tveggja aðila af sama atburði getur verið gjörólík og ekki þarf að vera að um einbeittan brotavilja gerandans hafi verið að ræða en það þurrkar þó ekki út upplifun brotaþolans og afleiðingar reynslunnar. Egg er jafn brotið hvort sem því er viljandi grýtt í gólfið eða misst af slysni. Að meðhöndla atvikið út frá upplifun brotaþola felur ekki í sér afstöðu um ásetning eða persónu gerandans, heldur er einfaldlega grundvallar virðing fyrir brotaþola. Auðvitað er eðlismunur á aðila sem nýtur þess að skaða annað fólk og aðila með skakka mynd af kynlífi, ástarsamböndum, samskiptum og eigin forréttindastöðu. Sá eðlismunur birtist í hæfni geranda til að taka ábyrgð á eigin gjörðum, læra af mistökum sínum og þjálfa sig til betri vegar; og í möguleikum samfélagsins á að stýra viðkomandi frá frekari skaðlegri hegðun. En frá sjónarhóli brotaþola skiptir ásetningur gerandans sjaldnast miklu. Mörk og samþykki Mörk eru nokkurs konar leiðbeiningar um hvernig við viljum láta koma fram við okkur. Þau eru auðvitað misjöfn eftir því hvers konar sambönd eða samskipti er um að ræða en eiga við í öllum aðstæðum og geta þróast með aukinni reynslu og sjálfsþekkingu. Mörk eru virt með að vera alltaf viss um samþykki annars fólks fyrir hvers kyns samskiptum. Þetta er sérlega mikilvægt í kynlífi, því að vaða yfir kynferðisleg mörk annarrar manneskju er kynferðisofbeldi. Samþykki er að mörgu leyti erfitt hugtak en þó lykilatriði í umræðunni um kynferðisofbeldi. Mikilvægt er að útskýra fyrir nemendum hvað raunverulegt samþykki þýðir – það að báða eða alla aðila langi til að taka þátt í kynlífinu. Samþykki snýst ekki bara um orðin „já“ eða „nei“, því þau orð eru viss einföldun í svo flóknum og viðkvæmum samskiptum. Nei þýðir nei, það vitum við öll og á svo sannarlega við í kynlífi líkt og öllum aðstæðum. En frasinn gefur ekki heildarmynd af því sem samþykki felur í sér. Setning á borð við „hún sagði aldrei nei“ beinir sjónum að því sem manneskja vill ekki en kynlíf í eðli sínu eru samskipti sem ganga út frá sameiginlegum vilja og löngun. Neitun er heldur ekki endilega orðuð heldur gjarnan tjáð á líkamlegan hátt – með að gefa ekkert til baka. Kennum ungmennum að kynlíf séu ekki einstefnusamskipti, þá þurfi að stoppa og skoða stöðuna.

RkJQdWJsaXNoZXIy MjIxNzc=