40 | Framhaldsskólinn 2890 | Menntamálastofnun 2023 | Þolendaskömmun Áberandi dæmi um nauðgunarmenningu er þegar konum er bent á að til að forðast nauðgun verði þær einfaldlega að klæða sig á ákveðinn hátt, drekka lítið, vera ekki einar á ferð og vera stöðugt meðvitaðar um umhverfi sitt. Þolendaskömmun sendir þau skilaboð að þolendur beri ábyrgð á að vera ekki nauðgað, í stað þess að gerendur beri augljóslega þá ábyrgð að nauðga ekki. Viðhorf sem þessi hafa alvarlegar afleiðingar og smitast út í allt samfélagið, hvort sem er í daglegu tali eða innan réttarvörslukerfisins, þar sem atriði eins og klæðaburður brotaþola voru lengi vel talin skipta máli við rannsókn nauðgunarmála og fyrir dómstólum. Enn þá er gengið út frá því að brotaþoli hafi líklega ekki sýnt nógu greinilega að ofbeldið væri sér á móti skapi. Þolendaskömmun er algeng þegar kemur að kynferðisofbeldi en sjaldan varðandi aðra glæpi. Seint myndi heyrast: „Var brotist inn hjá þér? Tja, þú hefðir nú ekki átt að eiga svona flott hús … hefðir ekki átt að staðsetja þetta dýra sjónvarp þar sem það sést inn um gluggann – svoleiðis býður nú bara upp á að láta brjótast inn … þú hefðir auðvitað átt að vera með öryggiskerfi … þú hefðir bara ekkert átt að fara upp í bústað heila helgi og skilja húsið eftir mannlaust …“ Þolendaskömmun er einfaldlega ekki raunhæf hugmynd. Brotaþoli getur aldrei borið ábyrgð á glæp sem annar aðili ákveður að fremja, auðvitað ekki í kynferðisbrotamálum frekar en nokkrum öðrum glæpum. Í dag er þolendaskömmun mest áberandi í tengslum við stafrænt ofbeldi. Líkt og íslenskur geðlæknir skrifaði: „Konurnar eru að senda af sér nektarmyndir af brjóstum eða kynfærum til einhvers sem þær treysta – einhver elskhugi sem tekur myndina og svo þegar sambandið súrnar þá náttúrulega setur hann myndina á netið og þá er konan allt í einu orðin ægilegt fórnarlamb, hefur verið svikin og þvíumlíkt. En hún getur engum um kennt nema sjálfri sér því það bera allir ábyrgð á því sem þeir setja á netið sjálfir.“ Nánar verður fjallað um stafrænt kynferðisofbeldi hér á eftir en strax skal tekið fram að slík brot eru ólögleg og mjög alvarleg. Þau geta haft jafn alvarlegar afleiðingar og líkamlegt kynferðisofbeldi og þolendaskömmun á sér ekki meiri rétt hér en við önnur kynferðisbrot.
RkJQdWJsaXNoZXIy MjIxNzc=