Kynbundið ofbeldi og skólakerfið - kennarahandbók

39 | Framhaldsskólinn 2890 | Menntamálastofnun 2023 | Nauðgunarmýtur Nauðgunarmýtur fela í sér lífseigar ranghugmyndir um nauðganir og eru ein leið til þess að viðhalda kynferðisofbeldi og réttlæta það. Þrátt fyrir að meirihluti nauðgana falli ekki að algengum nauðgunarmýtum hafa þær engu að síður áhrif á brotaþola nauðgana, þar sem þolendur spegla sig í mýtunum og þurfa að meta hvort brotið var „nógu mikil nauðgun“ til að gera mál úr því. Nauðgunarmýturnar eru til dæmis: ● Sífellt er logið til um nauðganir. ● Brotaþoli getur kallað yfir sig kynferðisofbeldi á einhvern hátt og ber þannig ábyrgð á stöðunni. ● Eingöngu konum er nauðgað. ● Eingöngu ákveðinni týpu af konu er nauðgað. ● Ofbeldi er aðeins raunverulegt ef brotaþoli berst um og öskrar nei. ● Nauðgun felur oftast í sér vopn eða lyfjabyrlun. ● Kynferðisofbeldi er aðeins alvarlegt ef það er líkamlegt. ● Kynferðisleg áreitni er ekki alvarleg. ● Ofbeldismaðurinn er oftast ókunnugur. ● Ekki er gerlegt að nauðga maka sínum. ● Gerendur kynferðisofbeldis eru siðblind skrímsli, varla manneskjur. ● Ofbeldið á sér helst stað úti á götu, á djamminu og aðallega á útihátíðum. ● Eingöngu ákveðin týpa af mönnum nauðga. ● Góðir strákar nauðga alls ekki. ● Konur nauðga ekki síður en karlar. ● Aðeins dómur segir til um hvort kynferðisofbeldi hafi átt sér stað – saklaus uns sekt er sönnuð. ● Kærur og tilkynningar til lögreglu gefa góða mynd af raunverulegum fjölda kynferðisbrota. Kennarar þurfa að vera meðvitaðir um algenga frasa og klisjur sem þjóna nauðgunarmenningunni. Bæði til þess að forðast sjálfir þau orð og til þess að geta bent nemendum á hvernig slík orð geta verið heftandi fyrir umræðuna. Kynferðisofbeldi er á alla kanta viðkvæmt mál en hægt er (og mikilvægt) að ræða það á annan hátt en að vinna gegn samfélagsbyltingum síðustu ára, þar sem brotaþolar taka sér loks pláss og skila skömminni.

RkJQdWJsaXNoZXIy MjIxNzc=