Kynbundið ofbeldi og skólakerfið - kennarahandbók

37 | Framhaldsskólinn 2890 | Menntamálastofnun 2023 | Kynbundið ofbeldi Kynbundið ofbeldi verður ekki til í tómarúmi heldur tengist sterklega ríkjandi menningu, s.s. valdamismun, skaðlegum karlmennskuímyndum og hugmyndum um eðli og hlutverk kynjanna. Kynbundið ofbeldi er rótgróið í kynjakerfinu en karlar eru almennt í forréttindastöðu gagnvart börnum, konum og fólki af öðrum kynjum. Ofbeldið er birtingarmynd þess valdamisvægis, og einnig spila inn ýmiss konar breytur sem jaðarsetja fólk og gera það enn útsettara. Kynbundið ofbeldi á sér fjölbreyttar birtingarmyndir og getur t.d. verið kynferðislegt, andlegt, stafrænt, fjárhagslegt eða líkamlegt; og getur m.a. birst sem ofbeldi í nánu sambandi, einelti, mansal eða morð. Þessi kafli leggur áherslu á kynferðisofbeldi og kynferðiseinelti eins og það birtist iðulega í skólamenningu og samskiptum ungmenna. Minnihluti fólks beitir kynferðisofbeldi en mun stærri hópur heldur uppi skaðlegum viðhorfum um ofbeldið. Við tölum hreinlega um að nauðgunarmenning ríki í samfélagi. Þess vegna hefst kaflinn á umfjöllun um ríkjandi samfélagsviðhorf. Nauðgunarmýtur (sem ekki eiga við rök að styðjast) og viðhorf gagnvart kynferðislegu ofbeldi og áreitni hafa mikið um það að segja hvernig brotaþolum er mætt og er eitt af því sem fælir þolendur frá því að opna sig um ofbeldið og leita aðstoðar. Eins hræðist samfélagið mjög að taka á ofbeldinu með því að kalla gerendur til ábyrgðar og kenna þeim betri leiðir en öðruvísi verður kynbundið ofbeldi aldrei upprætt. Fræðslan um kynferðisofbeldi þarf því ekki síður að fjalla um nauðgunarmenningu, gerendameðvirkni og þolendaskömmun. Nauðgunarmenning Nauðgunarmenning er félags- og menningarlegt fyrirbæri þar sem árásargjörn hegðun karla í garð kvenna í kynferðismálum er talin eðlilegur hluti af samskiptum kynjanna. Slík menning umber og viðheldur ofbeldinu með því að loka augunum fyrir því, gera lítið úr því, afsaka það eða réttlæta. Nauðgunarmenningin hefur áhrif á samskipti fólks, hvaða brandarar teljast fyndnir, hvernig snerting er talin við hæfi, hvaða ummæli og viðhorf eru álitin eðlileg og þar fram eftir götunum. Þetta merkir ekki að öllum í samfélaginu þyki kynferðisofbeldi í lagi, heldur er ástandið þannig að ógnin af kynferðisofbeldi hefur áhrif á flestar konur. Í íslenskri rannsókn frá 2014 koma fram vísbendingar um að nauðgunarmenning sé rótgróið fyrirbæri í íslensku samfélagi og að ótti við nauðganir hafi mikil áhrif á daglegt líf flestra kvenna, þær stýri hegðun sinni til þess að minnka líkurnar á því að verða fyrir slíku ofbeldi. Þetta er nauðgunarmenning í kjarna sínum – að kyn manneskju ráði áhættunni á því að verða fyrir nauðgun.

RkJQdWJsaXNoZXIy MjIxNzc=