Kynbundið ofbeldi og skólakerfið - kennarahandbók

31 | Framhaldsskólinn 2890 | Menntamálastofnun 2023 | Áhrif kláms á samfélagið *Vá-viðvörun* Hér á eftir verða lýsingar á grófum klámatriðum, svo lesendur þessarar handbókar sjái ljóslega af hverju nauðsynlegt er að fjalla um klámneyslu ungmenna í samhengi við kynferðisofbeldi. Ofbeldi í klámi Klámbransinn gætir þess að bjóða upp á nýjabrumið sem viðheldur áhuga og jafnvel fíkn neytandans, með bæði nýju (kvenmanns)holdi og með því að ganga sífellt nær takmörkum þess holds. Markaðurinn er risastór og framleiðendur, sem keppast um neytendur, ganga æ lengra í að sýna sífellt grófara efni. Ýmislegt sem nú tilheyrir almennu klámi, tilheyrði áður jaðarklámi sem fæstir í klámiðnaðinum vildu bendla sig við. Fólk sem vildi sjá slíkt klám þurfti að hafa þó nokkuð fyrir því að nálgast það eftir bakdyraleiðum en í langan tíma hafa slíkar tegundir kláms verið það fyrsta sem kemur upp í leitarniðurstöðum á netinu. Við sem eldri erum stöndum gjarnan í þeirri trú að klámið sé léttblátt líkt og áður fyrr en því fer fjarri. Fordómar, blætisvæðing og valdníðsla á manneskjum út frá kyni, kynhneigð, kynþætti og aldri er algengt í klámi. Áberandi þema í miklum meirihluta klámefnis eru niðrandi og niðurlægjandi orð og ofbeldisfull eða lítilsvirðandi hegðun (iðulega karlmanns gagnvart stúlku). Forsíða vinsælustu klámveitunnar býður t.d. í dag upp á atriði þar sem grímuklæddur maður heldur tveimur ungum konum hlekkjuðum í kjallara og brýtur á þeim. Hryllingsmynd í hugum flestra – en „kynfræðsla“ barnanna okkar. „Teens“ er eitt alvinsælasta leitarorðið í tengslum við klám. Ólöglegt er að notast við leikara sem eru undir 18 ára en þá er oft reynt að fá 18-20 ára leikkonur sem líta út fyrir að vera mun yngri og þær sýndar á sem barnalegastan máta. Hvers kyns sifjaspellsatriði eru með þeim vinsælustu í klámi um þessar mundir. Gjarnan merkt sem stjúpfjölskyldur til að brjóta ekki lög eða þess gætt að „fjölskyldumeðlimirnir“ stundi ekki kynlíf saman þótt persónurnar tilheyri sama atriði. Svo sem önnur sena á klámforsíðu dagsins – þar sem tvær ungar vinkonur fagna útskriftardeginum sínum með því að skiptast á feðrum; hvor pabbinn stundar kynlíf með ungri dóttur hins, hlið við hlið á sama sófa. Þegar kemur að vinsælu teiknuðu klámi – Anime – eru oft engar reglur um efnistökin þar sem enginn lifandi leikari getur skaðast, lagaramminn er misjafn eftir löndum framleiðslunnar (munum að netið á sér engin landamæri). En skilaboðin um að barnaníð, dýraníð, hópnauðgun o.s.frv. sé eðlilegt og spennandi kynlíf eru neytandanum jafn skýr, þótt efnið sé teiknað (oft tölvugert og mjög raunverulegt). Klámbransinn Ljóst er að mansal, ofbeldi og önnur ósiðleg og ólögleg iðja fylgir klámbransanum, enda eru netheimar gríðarstórir og mikið til óritskoðaðir. Síðustu árin hefur ítrekað verið bent á að mörg myndskeið á vinsælum efnisveitum sýni stúlkur undir lögaldri, upptökur af nauðgunum, stafrænt kynferðisofbeldi, þolendur mansals o.s.frv. Klámveiturnar hafa löngum fullyrt að ekki sé gerlegt að greina glæpsamlegt og ofbeldisfullt efni frá annars konar klámefni og því eru litlar sem engar síur á slíkum síðum.

RkJQdWJsaXNoZXIy MjIxNzc=