Kynbundið ofbeldi og skólakerfið - kennarahandbók

29 | Framhaldsskólinn 2890 | Menntamálastofnun 2023 | Áhrif kláms á kynlífshandrit ungmenna Rannsóknir sýna að klámáhorf getur haft mikil áhrif á kynverund áhorfandans og viðhorf til kynlífs og kvenna. Klám er eitt af því sem færir til mörkin um hvað telst vera ásættanleg kynlífshegðun og hefur mikil áhrif á þróun kynlífshandritsins. Klámneysla er mjög kynbundin. Strákar horfa miklu frekar á klám en stelpur og hafa mun oftar jákvæð viðhorf til kláms en þær. Strákar horfa oftast á klám í einrúmi en stelpur oftast með kærasta eða vinum. Kynlífsmenning íslenskra unglinga er afar lituð af varasömum skilaboðum úr klámi. Mörg ungmenni hafa hreinlega ekki hugmynd um hvernig kynlíf getur litið út öðruvísi en í kláminu, svo kynfræðsla nútímans þarf að leggja áherslu á að kynna allt sem þar vantar – samtal, hlýju, virðingu, samþykki o.s.frv. Mestmegnis hefur klámneyslan áhrif á þann veg að strákarnir fá hugmyndir úr klámi, sem hafa bein áhrif á hegðun þeirra í kynlífi. Strákarnir vilja geta sagt vinahópnum frá því að þeir hafi prófað vissar athafnir úr kláminu og ætlast til eða óska eftir því að stelpurnar leiki með þeim klámsenur. Jafnvel athafnir sem geta valdið stúlkunum sársauka og niðurlægingu en þær telja sig ekki vera í aðstöðu til að neita. Þær vilja fremur taka þátt en missa frá sér strákinn eða vera stimplaðar kynkaldar og valdið liggur því hjá strákunum. Strákar læra að verða neytendur kláms en stelpur að líkami þeirra er það sem skilgreinir þær. Þær læra að þjóna klámvæðingunni, oft þvert á eigin langanir, sjálfsvirðingu og öryggi. Hver er vandinn við klám? Segja má að klám skaði bæða heila, hjarta og samfélag. Heilann að því leyti að klám er ávanabindandi efni og plantar skakkri mynd af kynlífi í huga neytandans. Hjartað því klám hefur sterk áhrif á upplifun neytenda af kynlífi og öðrum nánum samskiptum og auðveldara verður jafnvel að eiga náin tengsl við skjá en aðra manneskju. Og loks samfélagið því klám hefur áþreifanleg áhrif á kynferðisofbeldi og samfélagsviðhorf til kynlífs, kvenna og minnihlutahópa. Eins er klámbransinn afar dökkur heimur, nátengdur mansali og öðru ofbeldi. Áhrif kláms á heilann Sjálfsfróun og fantasíur eru sannarlega af því góða, m.a. því að þekkja sjálfan sig sem kynveru gerir einstakling betur í stakk búinn til að tengjast annarri manneskju kynferðislega. Það er mikilvægt fyrir allar kynverur að fá að vega og meta hvað er örvandi og hvað fráhrindandi og eins að upplifa hvernig líkaminn bregst við því sem á sér stað í huganum. En heili unglinga er ekki fullmótaður. Sá hluti heilans sem stjórnar skynsemi og rökhugsun þróast oft hægar en sá hluti sem stjórnar tilfinningum og hvatvísi og fær því sá síðarnefndi oftar að ráða viðbrögðum unglings. Þegar ungmenni horfa á klám verður oförvun í umbunarstöð heilans og mikil dópamínframleiðsla á sér stað. Ef það er tengt við sjálfsfróun með enn frekari boðefnalosun er boðið upp á höfugan kokteil sem er sérlega ávanabindandi. Kynferðislega örvunin verður mjög mikil og hröð, með nánast engri fyrirhöfn. Heilinn fer fljótlega að kalla eftir því að upplifa aftur þessa sterku örvun.

RkJQdWJsaXNoZXIy MjIxNzc=