Kynbundið ofbeldi og skólakerfið - kennarahandbók

25 | Framhaldsskólinn 2890 | Menntamálastofnun 2023 | Kvenleikinn er tvíeggja sverð Konum er þröngur stakkur sniðinn því í almennum hugmyndum um æskilegan kvenleika birtist þversagnarkennt viðhorf, sem sprettur úr því sem kallast hið karllæga sjónarhorn samfélagsins. Það felur í sér að konur eru sífellt metnar út frá því hvernig þær falla að hugmyndum karla um einhverskonar úrvalskonu, frekar en að vera metnar á eigin verðleikum. Í þessu sjónarhorni er konum ætlað að vera kynþokkafullar og kynferðislega þjónandi en eru þó niðurlægðar eða jafnvel útskúfað ef þær þykja á einhvern hátt of kynferðislegar. Stúlkur fá linnulaus skilaboð um að vera kynferðislega aðlaðandi en eiga á sama tíma í hættu á að vera fordæmdar og stimplaðar druslur ef þær eru kynverur á eigin forsendum. Þær sem hafa síðan ekki sýnilegan áhuga á kynlífi eiga á hættu að vera stimplaðar kynkaldar með tilheyrandi hæðni og lítillækkun. Enska orðatiltækið damned if you do, damned if you don‘t á vel við þennan þrönga ramma kvenleikans. Vegna þessara tvöföldu skilaboða getur ákveðin togstreita fylgt því að verða fyrir kynferðislegri áreitni eða umtali. Í slíkri „athygli“ er fólgin ákveðin staða eða virðing fyrir stúlku – þ.e. að þykja kynferðislega aðlaðandi eða reynd. Unglingsstúlkur geta því tekið áreitninni sem merki um vinsældir og jafnvel gengist upp í ímyndinni en á sama tíma veldur það skömm og niðurlægingu. Að feta hinn þrönga veg ásættanlegs kvenleika er því krefjandi línudans fyrir ungar stúlkur, í að finna jafnvægi á milli tveggja óæskilegra ímynda; ósexý konunnar og lauslátu druslunnar. Jaðarhópar Í vinnu með ungu fólki þarf auðvitað alltaf að taka tillit til fjölbreytileikans, að gæta hagsmuna hvers nemanda er ein af skyldum kennara. En þegar kemur að ofbeldisfræðslu er nauðsynlegt að vita að minnihlutahópar eiga í sérstakri hættu á að verða fyrir kynbundnu ofbeldi og að það ofbeldi á sér gjarnan sérstakar birtingarmyndir. Þrátt fyrir þetta sýnir ný doktorsrannsókn á íslenskum ofbeldisforvörnum mikinn skort á fræðsluefni sem fjallar um minnihlutahópa. Hinseginleikinn hefur orðið meira áberandi í fræðslu á síðustu árum en aðrir jaðarhópar búa flestir við að aðeins sé ýjað að tilvist þeirra með myndefni. Kynbundið ofbeldi tengist mjög ójöfnuði í forréttindum og völdum svo mikil þörf er á vönduðu fræðsluefni um kynbundið ofbeldi gagnvart t.d. fötluðum og fólki af erlendum uppruna. Þetta gerir enn mikilvægara að hlusta eftir reynslusögum jaðarhópa af ofbeldi og nýta í fræðslu til nemenda þá brotaþola sem tjá sig á t.d. samskiptamiðlum eða við fjölmiðla. Sem dæmi má nefna „Anti-rasistana“ á Instagram en þær ungu konur tala af eigin reynslu um rasískt kynferðisofbeldi og áreitni.

RkJQdWJsaXNoZXIy MjIxNzc=