12 | Framhaldsskólinn 2890 | Menntamálastofnun 2023 | Slaufunarmenning Þetta hugtak hefur talsvert borið á góma síðustu misseri án þess endilega að skýr skilgreining fylgi. Oft er verið að vísa í þegar frægir karlar hafa misst vinnu eða verkefni eftir að þolendur stíga fram og opna sig um ofbeldi af þeirra hálfu. Þó er afar hæpið að tala um raunverulega slaufun á þjóðþekktum einstaklingum sem ásakaðir hafa verið um kynferðisofbeldi. Þrátt fyrir oft háværa kröfu samfélagsins um að viðkomandi víki frá opinberum störfum, koma þeir í langflestum tilfellum aftur til fyrri starfa; s.s. í útvarp, sjónvarp, hlaðvarpsþætti, upp á svið eða á fótboltavöllinn. Höfum þá í huga að iðulega eru það brotaþolar ofbeldis sem verða fyrir útskúfun á vinnustöðum, úr vina- og fjölskylduhópum eða jafnvel heilu samfélögunum, flytjast á brott og flosna upp úr starfi eða námi – oft vegna viðhorfa umhverfisins. Hörmulegasta afleiðing kynferðisofbeldis og útskúfunar í kjölfarið er sjálfsvíg en 20-30% þeirra sem leita til Stígamóta hafa gert tilraun til sjálfsvígs. Af þeim sem urðu fyrir ofbeldinu fyrir 18 ára aldur, berst helmingur við sjálfsvígshugsanir. Höfum í huga að þessar tölur eiga einungis við þau sem lifa það að mæta í viðtal á Stígamótum. Sumir brotaþolar náðu ekki svo langt áður en þeir tóku eigið líf. Í stað þess að spyrja: „Hvenær á að hleypa gerendum aftur inn í samfélagið?“ mætti minna sig á að við sem samfélag erum rétt nýfarin að opna umræðuna um kynferðisbrot og gefa þolendum færi á að tjá sig. Við verðum að staldra við og hugsa hvert næsta skref sé, áður en við veitum gerendum syndaaflausn. Hvernig geta gerendur kynferðisbrota í raun axlað ábyrgð, grætt sár og bætt sig? Tölum því frekar um ábyrgðarmenningu en slaufunarmenningu – þá kröfu samfélagsins að gerendur kynferðisofbeldis séu kallaðir til ábyrgðar (sú ábyrgð á sér ýmsar birtingarmyndir). Sú nýlega krafa er viðbragð við gríðarlöngu skeytingarleysi um kynferðisofbeldi, gerendameðvirkni og þolendaskömmun.
RkJQdWJsaXNoZXIy MjIxNzc=